Sennilega besti snúðurinn í Stokkhólmi

Frönsk horn hafa náð að spilla sambandi kaffi og kleinu hér á landi. Á sænskum kaffihúsum gætir lítilla franskra áhrifa og heimamenn panta sér annað hvort kanel- eða kardemommusnúð með kaffinu. Túristi telur sig hafa fundið besta snúðinn í höfuðborginni.

Jafnvel þó sænska konungsfjölskyldan eigi ættir sínar að rekja til Frakklands á franskt sætabrauð ekki mikinn séns á kaffihúsunum í Svíþjóð. Heimamenn halda nefnilega tryggð við sína kardemommu- og kanelsnúða og því fá frönsku hornin ekki breytt. Þessar gerdeigsbollur eru ríkulega kryddaðar og sumir bakarar setja marsípan inn í til að lyfta þeim á enn hærra plan.

Á litlu útikaffihúsi við höll Viktoríu krónprinsessu í Haga garðinum, rétt utan við miðborg Stokkhólms, er möndluspæni bætt við uppskriftina og úr verður kardemommubolla sem á líklega engan sinn líkan í borginni.

Túristi mælir því með að lesendur geri sér ferð út í Haga næst þegar þeir eru í Stokkhólmi og smakki snúðana í Konditori Vasaslätten. Ekki skemmir fyrir að Haga er einn fallegasti hluti borgarinnar. Konditoríið er opið frá byrjun maí og til loka september.

BÍLALEIGA: Auðveld leit að hagstæðasta bílnum
HÓTEL: Ódýr hótel út um allan heim

Greinin birtist áður í Fréttatímaum
Mynd: Túristi