Sérstakir dómstólar fyrir ferðamenn

Tíðar fréttir af túristum í klípu á taílensku eyjunni Phuket urðu til þess að forsvarsmenn Evrópusambandsins vöruðu við heimsóknum þangað. Heimamenn hafa gripið í taumana enda skiptir ferðaþjónustan sköpum fyrir efnahag landsins.

Svikahrappar sitja oft um grandalausa ferðamenn og beita öllum meðulum til að komast yfir verðmæti. Fréttir af hópi danskra túrista sem var rændur eftir að hafa drukkið ólyfjan á eyjunni Phuket urðu nýlega kveikja að umræðum um öryggi erlendra ferðamanna í Taílandi.

Í sumar beindi Evrópusambandið þeim tilmælum til taílenskra stjórnvalda að þau gripu til aðgerða til auka öryggi túrista og þá sérstaklega á Phuket. Ráðamenn í Taílandi hafa tekið málið til sín og ætla að koma upp dómstólum á vinsælum ferðamannastöðum þar sem útlendingar, sem telja sig hafa orðið illa úti í viðskiptum við heimamenn, geta leitað réttar síns. Fyrsti dómstóllinn opnaði í gær á hinum vinsæla strandstað Pattaya. Í tilkynningu á heimasíðu ferðamálaráðs Taílands er haft eftir ráðherra málaflokksins að hann vonist til að þetta framtak muni bæta ímynd Taílands því deilur ferðamanna fái oft mjög mikla athygli í heimalandi viðkomandi.

Ferðaþjónusta Taílands hefur vaxið hratt síðustu fjögur ár og á fyrri helmingi ársins heimsóttu um þrettán milljónir útlendinga landið heim. Það er aukning um fimmtung frá sama tíma í fyrra.

TILBOÐ: 15% AFSLÁTTUR Á GÓÐU HÓTELI Í KAUPMANNAHÖFN
BÍLALEIGA: RENTALCARS LOFAR LÆGSTA VERÐINU

Mynd: Ferðamálaráð Taílands