Innanlandstaxtar á símtöl innan alls EES-svæðisins eftir 2 ár

Innan Evrópusambandsins eru unnið að frumvarpi sem bannar símafyrirtækjum að rukka meira fyrir símtöl milli aðildarlanda en innan hvers og eins. Túristi leitaði álits talsmanna Símans og Vodafone á breytingunum sem munu hafa áhrif hér á landi.

Það getur verið nærri átta sinnum dýrara að hringja heim úr íslenskum farsíma frá Bandaríkjunum en Bretlandi. Og íslenskur ferðamaður sem fer á netið í símanum vestanhafs borgar allt að þrjátíu sinnum meira en landi hans sem nýtir sér netsambandið í Danmörku. Helsta ástæðan fyrir þessum mikla mun er sílækkandi hámarksverð sem Evrópusambandið setur á símaþjónustu innan EES-svæðisins. Þannig hefur verð á megabæti lækkað úr allt að 7 evrum (um 1100 krónur) niður í 45 evrusent (73 krónur) á einu ári. Á næsta ári mun verðið lækka um helming.

Ókeypis að svara í símann

ESB hyggst ganga enn lengra og innan framkvæmdastjórnar þess hefur verið lögð fram tillaga um að gera það óheimilt að rukka fyrir móttekin símtöl í útlöndum frá og með næsta sumri. Gjöld fyrir gagnanotkun eiga að einnig að heyra sögunni til eftir tvö ár og símtöl frá einu aðildarlanda ESB til annars mega ekki kosta meira en sem nemur hæsta innanlandstaxta í hverju landi fyrir sig. Vegna aðildar Íslands að EES samningnum myndu reglurnar líka öðlast gildi hér á landi.

Ánægjulegt fyrir þá sem ferðast mikið

„Við hjá Símanum bíðum átekta og förum að leikreglum. Í þessari hugmynd felast að sjálfsögðu tækifæri fyrir fjarskiptafyrirtæki, sem og hindranir. En við teljum að fyrir meirihluta neytenda, þá sem ferðast sjaldan eða ekki, sé þessi hugmynd lítt ásættanleg,“ segir Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans. Ástæðan sé sú að kostnaður við að semja og halda utan um reikiumferð milli landa sé meiri en af innanlandsumferð. Með þessum nýju tillögum þyrfti innanlandsverð í farsíma að bera þennan reikikostnað af ferðamönnum og Íslendingum í útlöndum að sögn Gunnhildar. „Eitt verð óháð því hvar innan Evrópusambandsins og EES viðskiptavinurinn stendur hefur því verulegan ávinning fyrir þann sem ferðast mikið á kostnað þess sem ferðast ekki.“

Gunnhildur bætir því hins vegar við að vinna Evrópusambandsins við að lækka þau gjöld sem fjarskiptafyrirtæki mega rukka hvort annað um, fyrir notkun viðskiptavina þeirra á símkerfum hvers annars, hafi haft gríðarleg áhrif til hins betra fyrir þessa viðskiptavini óháð verðlagningu á innanlandsmarkaði.

Munu ekki bíða eftir Alþingi

Hrannar Pétursson hjá Vodafone segir að þessi þróun hafi verið fyrirsjáanleg um nokkurt skeið og komi því ekkert á óvart. Hann segir að Vodafone hafi verið á undan ESB hvað varðar verð á þjónustunni og boðið hana á kjörum sem eru hagstæðari fyrir flesta en tilmæli ESB kveða á um í gegnum þjónustuleiðina EuroTraveller. Hrannar telur jöfnun þessa kostnaðar vera hið besta mál því neytendur munu í auknum mæli nota tækin sín á ferðalögum um Evrópu. Alþingi verður að lögleiða breytingarnar þegar þar að kemur og þær fái ekki lagalegt gildi hér á landi á sama tíma og í löndum ESB að sögn Hrannars. „Hins vegar mun Vodafone, líkt og áður, taka nýja ESB verðskrá í notkun á sama tíma og það verður gert í Evrópu svo fremi sem engar tæknilegar hindranir verði í veginum. Við munum líklega þurfa að semja sérstaklega við símafyrirtæki í Evrópu um gildistímann. Þau geta þá boðið viðskiptavinum sínum góð kjör á Íslandi gegn því að veita okkar viðskiptavinum slíkt í sínu heimalandi“, segir Hrannar.

TILBOÐ: 15% AFSLÁTTTUR Á GÓÐU HÓTELI Í KAUPMANNAHÖFN
BÍLALEIGA: RENTALCARS LOFAR LÆGSTA VERÐINU

Mynd: Copenhagen Media Center