Fáðu meira út úr borgarferðinni

Sex heilræði fyrir þá sem vilja nýta tímann og peningana vel í næstu stórborgarreisu.

Búa miðsvæðis

Það getur verið freistandi að bóka gistingu í úthverfum og lækka hótelreikninginn um þúsundir króna. Kostnaður við að koma sér inn í borgina að morgni og heim að kveldi gengur þó fljótt á sparnaðinn. Svo ekki sé minnst á tímann sem fer í ferðalögin. Í stórborgunum skiptir líka máli að velja hótel í þeim borgarhlutum sem þykja mest spennandi.

Bóka borð

Það er uppskrift að misheppnaðri veitingahúsaferð að rölta sársvangur um ókunnuga borg í leit að spennandi matsölustað. Það er því ágætt að kynna sér matarmenningu borgarinnar áður en lagt er í hann og bóka borð á áhugaverðum veitingastöðum. Það er líka um að gera a nýta hádegið til að borða á betri stöðunum því þá eru verðin oftast nær lægri en þau eru á kvöldin.

Sveigjanleiki

Það er oft dýrast að fljúga út á föstudegi og heim á sunnudegi. Þeir sem geta verið fram á mánudag eða jafnvel ferðast í miðri viku geta því stundum fengið ódýrari farmiða og gistingu. Í sumum borgum lækka hótelstjórarnir hins vegar verðið um helgar þegar viðskiptafólkið og erindrekarnir halda heim. Þetta á til dæmis við um Frankfurt og Brussel.

Kortleggja daginn

Í þriggja daga borgarferð getur verið gott að hafa drög að dagskrá. Til dæmis er heppilegt að heimsækja vinsæla ferðamannastaði að morgni til því raðirnar lengjast þegar líður á daginn. Flakk á milli hverfa getur verið tímafrekt og því fínt að gera hverjum borgarhluta góð skil á einu bretti. Ferð upp á hótel til að skipta um föt fyrir kvöldið tekur sinn tíma og því skynsamlegt að skilja flíspeysuna eftir heima og vera heldur í hlýjum fötum sem hægt er að fara í út um kvöldið.

Vita hvað er frítt

Það kostar ekkert að heimsækja mörg af bestu söfnum í heimi og önnur hleypa frítt inn einu sinni í viku. Á góðum degi getur líka verið gaman að rölta um fallegan skrúðgarð og taka aðeins upp veskið til að kaupa sér hressingu.

Nýta almenningssamgöngur

Það er þægilegt að setjast upp í leigubíl og láta keyra sig upp að dyrum. En neðanjarðarlestir eru oftast fljótasti ferðamátinn þó það taki smá tíma að átta sig á kerfinu. Og auðvitað kostar lestarmiðinn miklu minna en bílstjórinn rukkar.

VILTU 15% AFSLÁTT AF GISTINGU Í KAUPMANNAHÖFN

Greinin birtist fyrst í Fréttatímanum
Mynd: Visit Sweden/Nicho Södling