Vægi sumars og veturs breytist sáralítið í ferðaþjónustunni

Dreifing ferðamanna á milli tímabila hefur ekkert breyst þrátt fyrir að komum þeirra hafa fjölgað hratt síðustu ár. Vinsældir Íslands meðal Breta eru miklar.

Tveir af hverjum þremur erlendu ferðamönnum sem heimsækja Ísland koma yfir sumarmánuðina, maí til september. Þegar rýnt er í talningar Ferðamálastofu á umferð um Leifsstöð kemur í ljós að hlutdeild þessa tímabils, af heildar ferðamannafjöldanum, hefur haldist á bilinu 63 til 66 prósent síðustu tíu ár. Um þriðjungur ferðamannanna dreifist á hina sjö mánuði ársins.

Mikil aukning frá Bretlandi

Síðastliðinn vetur heimsóttu sjötíu þúsund fleiri ferðamenn Ísland en veturinn þar á undan. Bretar stóðu undir fjörtíu prósent af þeirri aukningu og í sumar nam fjölgun þeirra hér á landi um 28 prósent. Á sama tíma hefur framboð á flugi héðan til Bretlands stóraukist og í vetur verða ferðirnar til London tvöfalt fleiri en fyrir tveimur árum síðan.

Mikilvægi beins flugs sést vel á fjölgun rússneskra ferðalanga hér á landi því þeim fjölgaði um meira en helming í sumar en Icelandair hóf að fljúga til Sankti Pétursborgar 1.júní. Það er í fyrsta skipta sem boðið er upp á áætlunarflug milli Íslands og Rússlands.

TILBOÐ: 15% AFSLÁTTTUR Á GÓÐU HÓTELI Í KAUPMANNAHÖFN
BÍLALEIGA: RENTALCARS LOFAR LÆGSTA VERÐINU