Verkall í vopnaleitinni í morgun

Öryggisverðir á Kaupmannahafnarflugvelli eru ósáttir við vaktaplan vetrarins og lögðu því niður vinnu í morgun. Langar raðir hafa myndast og mörgum ferðum seinkar. Fimm vélar eru væntanlegar frá Kaupmannahöfn til Keflavíkur í dag en óvíst hvort eða hversu lengi þær tefjast.

Allir flugfarþegar verða að fara í gegnum vopnaleit áður en þeir fara um borð. Nú í morgunsárið lögðu starfsmenn í öryggishliðinu á Kaupmannahafnarflugvelli niður vinnu og því er útlit fyrir að mörgum ferðum seinki frá Kaupmannahöfn í dag. Samkvæmt frétt Politiken standa hundruðir farþega í röðum við vopnaleitina.

Vél Icelandair á að fara í loftið klukkan korter yfir átta að íslenskum tíma og samkvæmt upplýsingum á heimasíðu flugvallarins er brottförin á áætlun.

Tvær aðrar vélar Icelandair eru væntanlegar frá Kaupmannahöfn í dag og líka frá Wow Air. Ekki er ljóst hvort þeim seinki en í tilkynningu frá forsvarsmönnum Kastrup kemur fram að þeir vonist til að deilan leysist sem allra fyrst í dag. Það er þó mælst til þess að fólk hinkri með að fara út á flugstöð þar til að deilan er leyst. Þeir sem nú þegar eru komnir eru beðnir um að fara úr röðunum og fá sér frískt loft utandyra eins og það er orðað á heimasíðu vallarins.

Uppfært 8:24: Verkfallinu er lokið en búast má við að mörgum ferðum frá Kaupmannahöfn seinki í dag samkvæmt því sem segir í tilkynningu frá forsvarsmönnum flugvallarins.

TILBOÐ: 15% afsláttur á góðu hóteli í Kaupmannahöfn
BÍLALEIGA: Rentalcars.com lofar lægsta verðinu

Mynd: Cph.dk