Vueling fjölgar ferðum til Íslands

Stærsta lággjaldaflugfélag Spánar flaug í fyrsta skipti til Íslands í sumar. Á næsta ári ætlar félagið sér enn stærri hluti hér á landi.

Þó Barcelona sé ein vinsælasta ferðamannaborg Evrópu þá hefur Íslendingum aðeins staðið til boða beint flug þangað yfir sumarmánuðina. Ferðirnar eru þó fáar og til að mynda voru Icelandair og Wow Air aðeins með tvær ferðir í viku til borgarinnar í sumar. Icelandair heldur uppteknum hætti á næsta ári en sumaráætlun Wow Air liggur ekki fyrir.

Í júlí síðastliðnum blandaði spænska lággjaldaflugfélagið Vueling sér í slaginn um farþega á leið milli Barcelona og Keflavíkur en félagið hefur verið í mikilli sókn á Norðurlöndum. Talsmaður þess staðfestir við Túrista að félagið ætli sér enn stærri hluti á Íslandi á næsta ári og mun því fljúga hingað frá byrjun júní og fram í miðjan september allt að þrjár ferðir í viku.

Ódýrustu farmiðar Vueling til Barcelona eru á rúmar sextán þúsund krónur (99 evrur) en borga þarf aukalega fyrir innritaðan farangur.

Sjá heimasíðu Vueling

SMELLTU TIL AÐ FINNA HÓTEL Í BARCELONA

Mynd: Vueling