201 sæti í nýjum vélum Wow Air

Það eru 174 sæti í þotunum sem Wow Air notar í dag. Félagið hyggst taka í notkun stærri vélar á næsta ári og þá verður pláss fyrir mun fleiri farþega. Ekki er þó ákveðið hvort farþegarýminu verði skipt niður eftir fargjaldaflokkum.

Flugfloti Wow Air mun samanstanda af tveimur tegundum af Airbus vélum þegar félagið fær flugrekstrarleyfi og hefur áætlunarflug til Bandaríkjanna í vor. Í dag leigir Wow Air þotur af tegundinni Airbus A320 sem eru með 174 sæti. Fljótlega verður bætt við stærri vélum af gerðinni A321 samkvæmt því sem kemur fram í atvinnuauglýsingu fyrirtækisins í dag þar sem óskað er eftir flugmönnum.

Eitt farrými eða fleiri?

Það er venja meðal lággjaldaflugfélaga að bjóða aðeins upp á eitt farrými í vélum sínum og það hefur Wow Air einnig gert. Upplýsingafulltrúi fyrirtækisins segir að ekki hafi verið ákveðið hvort farþegarýminu verði skipt niður á næsta ári en ef það verður látið ógert verður pláss fyrir 201 sæti í stærri þotum Wow Air. Á heimasíðu Airbus segir að hægt sé að koma fyrir allt að 220 sætum í þessa tegund véla.

Samkvæmt því sem Túristi kemst næst eru vanalega 144 til 186 sæti í þeim vélum sem fljúga til og frá Íslandi. Flestar vélar Icelandair eru með 183 sæti en stærsta vél félagsins rúmar 216 farþega.

 

TILBOÐ: 15% afsláttur á góðu hóteli í Kaupmannahöfn
BÍLALEIGA: Smelltu til að gera verðsamanburð á bílaleigum út um allan heim

Mynd: Víkurfréttir