5 prósent Íslendinga fóru til Berlínar

Næsta sumar verður flogið ellefu sinnum í viku til höfuðborgar Þýskalands frá Keflavíkurflugvelli. Í ár hefur ferðum Íslendinga til Berlínar fjölgað um nærri helming.

Allt þetta ár hefur Wow Air boðið upp á tvær til þrjár vikulegar ferðir héðan til Berlínar. Í sumar flugu Airberlin og Lufthansa milli Keflavíkur og Tegel flugvallar líkt og undanfarin ár. Þrátt fyrir aukið framboð á ferðum í júní og júlí þá fækkaði komum Íslendinga í Berlín. Í ágúst varð hins vegar sprenging því samkvæmt talningu ferðamálaráðs borgarinnar þá lentu nærri þrefalt fleiri farþegar í Berlín með íslenskt vegabréf þá en í ágúst í fyrra.

Þegar bornar eru saman talningar Ferðamálastofu Íslands og ferðamálaráðs Berlínar kemur í ljós að nærri fimm prósent þeirra Íslendinga sem fóru til útlanda í ágúst hafa haldið til Berlínar. En tæplega þrjár af hverjum hundrað vélum sem hófu sig til lofts frá Keflavík í ágúst voru á leið til þýsku höfuðborgarinnar samkvæmt talningu Túrista.

Fyrstu átta mánuði ársins fjölgaði ferðum Íslendinga til Berlínar um 42 prósent.

Aðeins fleiri brottfarir

Samkvæmt upplýsingum frá talskonu Airberlin þá mun félagið halda áfram að fljúga fjórum sinnum í viku til Berlínar frá Keflavík á sumrin og Wow Air ætlar að fjölga ferðum sínum úr þremur í fjórar. Eins og kom fram hér á síðunni í vikunni þá tekur lággjaldaflugfélagið German Wings við Íslandsflugi Lufthansa á næsta ári. Mun félagið fljúga þrisvar í viku til Berlínar. Bæði þýsku flugfélögin bjóða aðeins upp á næturflug héðan og í heildina verða ferðirnar ellefu í viku en voru tíu síðastliðið sumar.

BÍLALEIGA: Rentalscars.com lofar lægsta verðinu
TILBOÐ: 15% afsláttur á góðu hóteli í Kaupmannahöfn

Mynd: Visit Berlin