Air Canada bakkar á meðan Icelandair sækir fram

Stjórnendur stærsta flugfélags Kanada segja vetrarflug milli Edmonton og London ekki borga sig. Forsvarsmenn Icelandair ætla samt að fjölga ferðum til kanadísku borgarinnar umtalsvert þó enn séu nokkrir mánuðir í jómfrúarflug félagsins þangað.

Í byrjun september var tilkynnt að Edmonton í Kanada yrði nýr áfangastaður Icelandair og flogið yrði þangað fjórum sinnum í viku frá lokum marsmánaðar og fram til áramóta. Í síðustu viku gáfu stjórnendur Air Canada það út að félagið ætli að draga saman seglin í Edmonton og fella niður flug þaðan til London frá áramótum og fram á vor. Er haft eftir talsmanni félagsins í frétt Edmonton Journal að það hafi reynst erfitt að reka þessa flugleið með hagnaði yfir vetrarmánuðina.

Forsvarsmenn Icelandair virðast hins vegar sjá tækifæri í auknum umsvifum í Edmonton því í gær var tilkynnt að félagið ætli að fljúga til kanadísku borgarinnar allt árið um kring og hefur jómfrúarferðinni verið flýtt um nokkrar vikur. „Ég minnist þess ekki að félagið hafi fjölgað ferðum og lengt tímabil með þessum hætti áður en flug hefst, þannig að þetta lofar góðu. Við reynum að fylgjast með því sem er að gerast á mörkuðunum og vera fljót að bregaðst við,” segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, aðspurður um hvort það sé ekki óvenjulegt að fjölga ferðum á nýjan áfangastað áður en áætlunarflugið hefst.

Ergelsi í Edmonton

Niðurfellingar á ferðum Air Canada til London mælast illa fyrir í Edmonton samkvæmt frétt Edmonton Journal. Formaður viðskiptaþróunarnefndar borgarinnar segir ákvörðunina fáranlega og sýna að Air Canada leggi meiri áherslu á að fjölga farþegum í nágrannaborginni Calgary. Talsmaður Edmonton-flugvallar tekur í sama streng og segir flugið til London hafa notið mikilla vinsælda. Þess má geta að Icelandair hefur síðastliðna tólf mánuði fjölgað vikulegum ferðum sínum til bresku höfuðborgarinnar úr fjórtán í nítján.

NÝJAR GREINAR: AUÐVELT AÐ FINNA ÓDÝRARI BÍLALEIGUBÍL Í ORLANDO
HÓTEL: 15% AFSLÁTTUR Á GÓÐU HÓTELI Í KAUPMANNAHÖFN

Mynd: Edmonton Tourism