Auðvelt að finna ódýrari bílaleigubíla í Orlando

Það eru margir Íslendingar sem brjóta upp veturinn með stuttri dvöl í sólarfylkinu Flórída. Þar er nauðsynlegt fyrir ferðamenn að vera með bifreið og samkvæmt verðkönnun þá borgar sig ekki að leigja bílinn beint af þekktustu bílaleigunum.

orlando skilti 860
Mynd: Visit Orlando

Ertu á leið til Flórída í vetur og þarft að leigja bíl? Þá skaltu frekar bóka hann í gegnum vefsíðu sem sérhæfir sig í verðsamanburði á bílaleigubílum í stað þess að panta á heimasíðu bílaleigufyrirtækjanna. Það getur nefnilega munað tugum prósenta á leiguverðinu samkvæmt verðkönnun sem Túristi gerði á bílaleigum við Sanford flugvöll í Orlando, heimahöfn Icelandair á Flórída.

Stór á verði meðalstórs

Sá sem er á leið út eftir hálfan mánuð og á eftir að bóka bíl getur fengið millistóran bíl á tæpar 27 þúsund krónur hjá Rentalcars.com. Samskonar bíll kostar tíu þúsund krónum meira hjá Budget en fyrir þá upphæð má fá stóran fjölskyldubíl (Mini-Van) hjá fyrrnefna fyrirtækinu. Í febrúar bjóða Budget og Hertz töluvert hærri verð en þau sem Rentalcars.com og Dohop finna.

Í öllum tilvikum var ódýrast að leigja bíl hjá Rentalcars.com en þar fær leigutakinn ekki að vita hjá hvaða leigufyrirtæki bíllinn er fyrr en gengið hefur verið frá pöntun. Hins vegar kemur fram að bifreiðin verði frá „leiðandi birgi“ eins og það er orðað á vefsíðunni. Þess má geta að útsendari Túrista bókaði bíl hjá Rentalcars.com í sumar og fékk bíl hjá Hertz.

Dagsetningarnar í könnuninni voru valdar af handahófi en miðað var við átta daga leigutíma í kringum flugáætlun Icelandair í Orlandó. Ótakmarkaður akstur, kaskótrygging og skattar voru hluti að leiguverðinu í öllum tilvikum.

Verð á bílaleigubílum við Sanford flugvöll í Orlandó:

Meðalstór bíll (Intermediate)
1.-9.nóv.’13
7.-15.feb.’14
Budget 36.749 kr. 35.325 kr.
Dohop 28.898 kr. 31.945 kr.
Hertz 33.039 kr. 52.478 kr.
Rentalcars* 26.784 kr. 29.243 kr.
Stór bíll (Mini-Van)
1.-9.nóv.’13
7.-15.feb.’14
Budget 57.260 kr. 52.560 kr.
Dohop 41.567 kr. 43.844 kr.
Hertz Uppseldur 68.071 kr.
Rentalcars* 36.487 kr. 39.012 kr.

 

 

 

 

*Rentalcars.com varð fyrir valinu þegar Túristi valdi sér samstarfsaðila til að sjá um bílaleiguleit Túrista. Verðlagið og sú staðreynd að síðan er á íslensku skiptu þar höfuðmáli.

TENGDAR GREINAR: Sex bestu fjölskylduhótelin í Orlando