Enn bætir Easy Jet við flugleið frá Íslandi

Frá og með vorinu mun breska lággjaldaflugfélagið Easy Jet fljúga héðan til Basel í Sviss tvisvar sinnum í viku. Þetta er í fyrsta skipti sem félagið býður upp á ferðir frá Keflavík til meginlands Evrópu.

Umsvif Easy Jet hafa aukist hratt hér á landi frá því að félagið hóf Íslandsflug fyrir einu og hálfu ári síðan. Í vetur mun Easy Jet fljúga hingað frá fjórum breskum borgum og þann 2. apríl bætist Basel í Sviss við leiðakerfi félagsins hér á landi. Þar með starfrækir félagið fimm flugleiðir frá Íslandi.

Í tilkynningu frá Easy Jet er haft eftir Hugh Aitken, framkvæmdastjóra, að forsvarsmenn félagsins hafi við mjög sáttir við viðtökurnar við flugi félagsins til og frá Íslandi. „Við höfum aukið jafnt og þétt við flugleiðirnar okkar frá Keflavík og flutt 110 þúsund farþega til og frá landinu á aðeins einu og hálfu ári.“ segir Hugh Aitken.

Easy Jet mun fljúga frá Keflavík til Basel á miðvikudögum og laugardögum fram á haust og eru ódýrustu sætin á 6.295 krónur samkvæmt því sem segir í tilkynningunni.

Á mörkum þriggja landa

Basel er þriðja stærsta borg Sviss og liggur rétt við landamærin að Frakklandi og Þýskalandi. Frá flugvelli borgarinnar tekur innan við hálftíma að keyra til frönsku borgarinnar Mulhouse og Freiburg í Þýskalandi er líka skammt undan. Borgin sjálf þykir líka spennandi áfangstaður og mæla ferðaskríbentar Lonely Planet sérstaklega með heimsókn þangað að sumri til þegar heitt er í veðri og borgarbúa kæla sig niður í Rínarfljótinu sem rennur í gegnum miðborgina. Basel er líka þekkt fyrir að hýsa Fasnacht, eitt stærsta festíval Evrópu, en þá ganga um 20.000 grímuklæddir einstaklingar um götur borgarinnar.

Stóraukið sætaframboð til Sviss

Síðastliðið sumar flugu Icelandair og Wow Air, hvort um sig, tvisvar í viku til Zurich í Sviss. Næsta sumar ætlar Icelandair að fjölga ferðunum þangað upp í fjórar og einnig fljúga til Genfar tvisvar í viku. Framboð á flugi til Sviss mun því rúmlega tvöfaldast á milli ára en svissneskum ferðamönnum hefur fjölgað hér um 17 prósent það sem af er ári samkvæmt talningu Ferðamálastofu.

HÓTEL: Ódýr hótel út um allan heim

Mynd: Basel.com