Farangurs- og sætagjald ekki í pípunum hjá Icelandair

Sum af stærstu flugfélögum Evrópu hafa tekið upp starfshætti lággjaldaflugfélaganna og rukka nú farþegana fyrir ferðatöskur og að taka frá sæti. Icelandair fylgist með þróun mála en er ekki með þess háttar gjaldtöku á teikniborðinu.

Á nokkrum af styttri flugleiðum British Airways þarf að borga hátt í tvö þúsund krónur fyrir að innrita farangur og hjá hinu hollenska KLM nemur gjaldið um 2500 krónum. Bæði félögin hafa nýverið tekið upp þessa starfshætti.

Forsvarsmenn stærsta flugfélags Evrópu, Lufthansa, ætla brátt að byrja að rukka farþega á ódýrasta farrými fyrir að taka frá sæti um borð og mun gjaldið nema um 1650 krónum. Þeir ekki vilja greiða geta áfram valið sér sæti, án kostnaðar, sólarhring fyrir brottför.

Samkvæmt Guðjóni Arngrímssyni, upplýsingafulltrúa Icelandair, eru ekki uppi áform um að taka upp þess háttar gjöld hjá félaginu en hann segir að fylgst sé með þessari þróun.

Allt að 3495 krónur fyrir tösku

Af þeim fimm flugfélögum sem halda úti reglulegu áætlunarflugi frá Keflavík í vetur þá rukka þrjú þeirra fyrir töskur og val á sætum. Hæsta farangursgjaldið er hjá Wow Air og nemur það 3495 krónum, hvora leið. Hjá Easy Jet eru gjöldin aðeins lægri eins og sjá má í samantekt Túrista á aukagjöldum vetrarins hér.

TILBOÐ: 15% afsláttur á góðu hóteli í Kaupmannahöfn
HÓTEL: Ódýr hótel út um allan heim

Mynd: Heathrow Airport