Ferðir til framandi landa með íslenskum fararstjórum

Kína, Nýja-Sjáland eða Suðurheimsskautið? Hér eru ferðirnar fyrir þá sem komast frí í vetur og vilja verja tímanum á fjarlægum slóðum með hópi Íslendinga og íslenskum fararstjóra.

Það segir sitt um áhuga Íslendinga á að ferðast á framandi slóðir að margar af þeim sérferðum sem ferðaskrifstofurnar bjóða í vetur eru uppseldar. Enn eru þó laus sæti í nokkrar ferðir með íslenskum fararstjóra á staði sem straumurinn liggur almennt ekki. Reisurnar eiga það sammerkt að kosta töluvert en það er líka heilmargt innifalið í verðinu.

Á ísinn með Ara Trausta

Stuttu eftir áramót flýgur hópur íslenskra ferðalanga til Argentínu og siglir svo þaðan til Antarktíku á vegum Bændaferða. Þetta mun vera í fyrsta skipti sem boðið er upp á hópferð héðan til Suðurskautsins og fararstjóri verður Ari Trausti Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur. Þessi ævintýralega ferð tekur hálfan mánuð og samkvæmt því sem kemur fram á heimasíðu Bændaferða þá eru aðeins tvö sæti eftir í reisuna.

Í austur

Þessi leiðangur á ísinn við Suðurpólinn er sér á báti þegar kemur að ferðum á framandi slóðir á vegum íslenskra ferðaskrifstofa. Hinar eru flestar í átt til heitari landa. Þannig stendur Vita fyrir rúmlega þriggja vikna ferð til Nýja-Sjálands og Dubai og Úrval-Útsýn verður með eina ferð til Taílands í febrúar. Ljósmyndarar fá svo sérferð í vor til Suð-Austur Asíu undir stjórn Þorkels Þorkelssonar ljósmyndara og ferðaskrifstofunnar Óríental. Til Kína ætla líka nokkrir hópar að halda á næsta ári þar á meðal frá Bændaferðum en ferðaskrifstofan hefur boðið upp á ferðir þangað frá árinu 2004. Transatlantic er einnig með reisu til Kína á næsta ári.

TILBOÐ: 15% afsláttur á góðu hóteli í Kaupmannahöfn
HÓTEL: Ódýr hótel út um allan heim

Mynd: Blaine Harrington New Zealand Tourism