Fleiri ferðir til A-Evrópu ekki í kortunum

Þrátt fyrir vinsældir Íslands meðal erlendra ferðamanna þá segja talsmenn stærstu flugfélaganna í austurhluta Evrópu að Íslandsflug sé ekki á teikniborðinu.

Erlendum ferðamönnum hér á landi fjölgaði um fimmtung á fyrstu níu mánuðum ársins. Fá lönd geta státað af annarri eins aukningu en þrátt fyrir vinsældirnar þá er ekki útlit fyrir að áætlunarflug héðan til austurhluta Evrópu muni aukast á næstunni. Talsmenn LOT flugfélagsins í Póllandi, Czech Airlines í Tékklandi og ungverska lággjaldaflugfélagsins Wizz Air segja í svari til Túrista að flug til Keflavíkur verði ekki á dagskrá félaganna á næsta ári.

Mikil aukning í komum Rússa

Síðastliðið sumar flaug Icelandair tvisvar í viku til Sankti Pétursborgar í Rússlandi. Þetta var í fyrsta skipti sem boðið var upp á áætlunarflug til landsins frá Keflavík og í kjölfarið fjölgaði rússneskum ferðamönnum hér um sjötíu prósent samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Það er sterk vísbending um að ferðamönnum frá A-Evrópu myndi fjölga hratt hér á landi ef flogið væri beint héðan til fleiri borga á þessu svæði. En Wow Air og þar á undan Iceland Express hafa flogið til Varsjár í Póllandi og Vilníus í Litháen. Iceland Express spreytti sig einnig á beinu flugi til Prag sumarið 2011.

BÓKAÐU HÓTEL Í VARSJÁ

NÝJAR GREINAR: AUÐVELT AÐ FINNA ÓDÝRA BÍLALEIGUBÍLA Í ORLANDO

Mynd: © Prague Information Service