Góð snjallsímaforrit fyrir ferðalanga

Við komumst ekki langt án vegabréfs og greiðslukorta í útlöndum en farsímar eru hratt og örugglega að verða þarfasti þjónn þeirra sem eru á faraldsfæti.

Meira en helmingur Íslendinga gengur víst með snjallsíma í vasanum. Á ferðalagi út í heimi er kjörið að nota þessi tæki til að auðvelda sér lífið á ókunnugum slóðum og halda utan um ferðagögnin. Hér eru nokkur forrit sem gera snjallsímann að góðum ferðafélaga.

Ferðaáætlunin á einum stað

Það getur verið furðu flókið að halda utan um staðfestingar frá hótelum, flugfélögum og bílaleigum. Tripit er ókeypis forrit sem geymir öll bókunarnúmer og setur upp dagskrá ferðarinnar án nokkurra vandræða og notandanum að kostnaðarlausu.

Réttu orðin

Þegar ferðinni er ekki heitið til enskumælandi lands þá flækist það fyrir flestum að skilja það sem þjóninn hefur krítað á töfluna við barinn, átta sig á merkingum á lestarstöðinni eða bara að þekkja léttmjólk frá nýmjólk í matvörubúðinni. Við þess háttar aðstæður getur verið auðveldast að láta Google Translate þýða fyrir sig vafaatriðin þó kveikja þurfi á netinu í smástund.

Ferðahandbækur

Það eru margir sem reiða sig á ferðabækur Lonely Planet þegar farið er um ókunnugar slóðir. Snjallsíma- og spjaldtölvuútgáfur þessara vinsælu bóka eru vel heppnaðar og þægilegar í notkun. Þær kosta líka miklu minna en útprentaða útfærslan. Borgarvísar Spotted by Locals eru einnig ljómandi góðir en þeir byggja á ábendingum heimamanna. Þar er oft að finna áhugaverða staði sem útlenskir ferðaskríbentar hafa ekki ennþá fundið og þar er því lítið um ferðamenn. Kortin sem fylgja forritinu eru ágæt og virka þó síminn sé ekki nettengdur.

Hótelbókanir

Flestir bóka sér gistingu áður en haldið er af landi brott. Það getur þó komið fyrir að fólk þurfi að finna hótel með stuttum fyrirvara. Hotel Tonight er býður upp á betri hótel á niðursettu verði ef bókað er samdægurs. Um hádegisbil birtist listi yfir tilboð næturinnar og þar er oft að finna helmingsafslætti en úrvalið er frekar lítið í Evrópu. Verðin eru almennt í hærri kantinum. Það þarf að tengjast netinu rétt á meðan leitað er eftir gistingu.

Kort

Það er til töluvert af kortum í snjallsíma en ekkert þeirra er eins vinsælt og Google Maps. Einn af helstu kostum forritsins er sá að það kann á almenningssamgöngur margra borga og getur því sparað fótgangandi ferðamönnum sporin. Ókosturinn er hins vegar sá að forritið verður að komast í samband við netið rétt á meðan leitað er.

Þeir sem vilja alls ekki þurfa að fara á netið í fríinu ættu geta náð í frí kort sem hægt er að hlaða niður í símann eða lagt út fyrir ForeverMap forritinu sem kostar um 350 krónur. Kortin eru uppfærð reglulega og notandinn hleður niður korti af því landi eða borg sem ferðinni er heitið til. Þessi kort henta til dæmis vel í bílinn.

Og svo er bara að muna eftir hleðslutækinu í símann svo þessi fínu forrit komi að gagni allt ferðalagið.