Hér færðu að sofa út á sunnudögum

Margir ferðamenn halda heim í vikulok og fjöldi hótelherbergja standa tóm á sunnudagsnóttum. Nokkrar bandarískar hótelkeðjur leyfa nú gestunum að taka því rólega síðasta daginn í stað þess að tékka sig út í hádeginu.

Að geta sofið út er einn helsti kosturinn við að fara í frí. En síðustu nóttina eru margir með varan á þó flugið heim fari ekki fyrr en um kvöldið. Ástæðan er sú krafa að fólk skili hótelherbergjunum milli 11 og 12.

Vestanhafs eru hótelstjórar þó farnir að slaka aðeins á þessum reglum og bjóða gestunum að halda herbergjunum lengur á sunnudögum. Án þess að greiða aukalega fyrir.

Á um tvö hundrað Westin hótelum í Bandaríkjunum þarf til að mynda ekki lengur að tékka sig út á hádegi á sunnudögum heldur nægir að skila lyklinum um þrjú leytið. Forsvarsmenn hótelkeðjunnar Novotels hafa teygt skilatímann til klukkan fimm og á Radisson Blu einskorðast tilboðið ekki við sunnudaga því svo lengi sem herbergi eru laus þá fær fólk að halda þeim til klukkan sex. Á Hyatt Union Square hótelinu í New York fá gestirnir að nota herbergin í að lágmarki einn sólarhring. Það þýðir að sá sem tékkar sig inn seint á fimmtudagskvöldi hefur herbergið fram á föstudagskvöld en ekki aðeins fram að hádegi samkvæmt frétt USA Today.

Túrista er ekki kunnugt um að evrópskir hótelstjórar hafi tekið upp þessa nýju siði en þess er þó vonandi ekki langt að bíða.

TILBOÐ: 15% afsláttur á góðu hóteli í Kaupmannahöfn
HÓTEL: Ódýr hótel út um allan heim

Mynd: Novotel