Lokun bandarískra ríkisstofnanna hefur lítil áhrif á ferðamenn

Sjö hundruð þúsund bandarískir ríkisstarfsmenn voru neyddir í launalaust leyfi í nótt. Þeir ferðamannastaðir sem eru vanalega ókeypis munu ólíklega opna í dag en allt mun ganga sinn vanagang á flugvöllunum vestanhafs.

Rétt við þinghúsið á Capitol Hill í höfuðborg Bandaríkjanna er að finna nokkur af þeim nítján söfnum sem tilheyra Smithsonian stofnuninni. Þessi söfn teljast til þeirra merkustu í heimi og aðgangur að þeim er frír. Ferðamenn sem leggja leið sína til Washington eru því líklegir til að ætla sér að heimsækja eitt eða fleiri Smithsonian söfn í ferðinni. En vegna ósættis á bandaríska þinginu hafa safnverðirnir verið sendir í launalaust leyfi og sömu sögu er að segja um hátt í sjö hundruð þúsund ríkisstarfsmenn vestanhafs.

Aðeins söfn í eigu ríkisins munu loka vegna ástandsins samkvæmt fréttum bandarískra netmiðla. Aðgangur að þjóðgörðum verður líka takmarkaður á meðan deilunni stendur. Að öðru leyti ættu ferðamenn vestanhafs ekki að finna mikið fyrir deilunni og til að mynda verður allt með hefðbundnu sniði í vopnaleitinni á bandarískum flugvöllum.

Sjúkrahús og löggæsla þar í landi eru alla jafna á ábyrgð fylkja og sveitarfélaga og deilan á þinginu hefur því ekki áhrif á starfssemina.

TILBOÐ: 15% AFSLÁTTTUR Á GÓÐU HÓTELI Í KAUPMANNAHÖFN
BÍLALEIGA: RENTALCARS LOFAR LÆGSTA VERÐINU