Miklu fleiri vopnaðir flugfarþegar

Að jafnaði reyna um fjórir farþegar á dag að komast um borð í flugvél í Bandaríkjunum með hlaðna byssu. Þetta er mikil aukning frá því í fyrra.

Vopnaleitin á bandarískum flugvöllum stendur undir nafni því það sem af er ári hafa fundist 1502 byssur í handfarangri flugfarþega þar í landi. Það eru fleiri skotvopn en voru gerð upptæk á flugvöllum vestanhafs allt síðasta ár. Samkvæmt frétt vefsíðunnar Skift hefur eftirlit með byssum ekki verið hert á þessu ári og það skýrir því ekki þessa miklu aukningu.

Það er aðallega í fylkjum þar sem fólk má ganga með skotvopn að flugfarþegar reyna að komast vopnaðir um borð. Þannig eru sex flugvellir í Texas á listanum yfir þá tuttugu þar sem flest skotvopn eru gerð upptæk.

Engar tölur frá Keflavík

Líkt og Túristi greindi frá í sumar þá eru forsvarsmenn Keflavíkurflugvallar ekki til í að veita jafn ítarlegar upplýsingar um vopnaburð flugfarþega eins og kollegar þeirra í Bandaríkjunum. En samkvæmt frétt Politiken var enginn gripinn með byssu á Kaupmannahafnarflugvelli í fyrra en þó voru tvær „paintball“ byssur gerðar upptækar.

TILBOÐ: 15% afsláttur á góðu hóteli í Kaupmannahöfn
HÓTEL: Ódýr hótel út um allan heim

Mynd: Tsa.gov