Næstum því allt fyrir útlitið í Stokkhólmi

Það hefur engu verið til sparað til að láta partíveitingastaðinn Nosh and Chow líta vel út.

Einn umtalaðasti veitingastaðurinn í Stokkhólmi um þessar mundir ber heitið Nosh&Chow og er að finna í reisulegu húsi í fínni hluta miðborgarinnar. Kastljósið beinist þó ekki að matnum heldur útliti staðarins því einn þekktasti innanhúsarkitekt í heimi var fenginn til að hanna herlegheitin.

Nosh&Chow er ekki aðeins veitingastaður því í húsinu eru líka barir og einnig stendur til að opna þar nokkur hótelherbergi.

Þegar útsendari Túrista leit við á staðnum þá var matseðillinn prentaður á landakort og hægt að velja nokkuð óvenjulega rétti frá ólíkum heimshlutum. Núna hefur hins vegar verið horfið frá þessum frumlegheitum og í staðinn siglt á öruggari mið með steikum, humri og jafnvel hamborgurum. Aðalréttirnir kosta á bilinu 225 til 325 sænskar (frá 4100 til 6300 krónur) en í hádeginu er réttur dagsins á 139 krónur (um 2700 krónur).

Nosh&Chow kjörinn staður fyrir þá sem eru að leita eftir nýmóðins veitingastað í Stokkhólmi þar sem hægt er að dvelja löngu eftir að maturinn er búinn. Kokteilbarir hússins njóta vinsælda og það er leit að flottari stað í Stokkhólmi akkúrat núna.

TILBOÐ Í STOKKHÓLMI: Frír drykkur og afsláttur á veitingastað hótelsins
HÓTEL: Gerðu verðsamanburð og bókaðu hagstæðasta kostinn

Myndir: Nosh&Chow