Þau íslensku sein að tileinka sér símatæknina

Listinn yfir þau flugfélög sem bjóða upp á sérstök snjallsímaforrit lengist jafnt og þétt. Hvorki Icelandair né Wow Air eru með þess háttar þjónustu.

Um helmingur íslenskra símnotenda gengur um með snjallsíma í vasanum samkvæmt nýlegum könnunum. Það er því vafalítið margir hér á landi sem nota símann til að lesa fréttir, leita á netinu og jafnvel bóka ferðalög til útlanda. Samkvæmt athugun Túrista þá bjóða nær öll erlendu flugfélögin sem fljúga hingað upp á snjallsímaforrit þar sem fólk getur meðal annars bókað flug, innritað sig, fylgst með flugáætlun, vistað brottfararspjöld og fleira. Icelandair býður upp á samskonar þjónustu í gegnum farsímavefinn m.icelandair.is en sérstakt snjallsímaforrit er ekki boðstólum hjá félaginu.

Wow Air tók sitt „app“ úr umferð

Í ágúst í fyrra var fáanlegt snjallsímaforrit frá Wow Air en það var lagt niður eftir að félagið tók yfir flugáætlun Iceland Express. Samkvæmt upplýsingum frá Wow Air er enn unnið að verkefninu en ekki liggur hvenær þess háttar forrit verður fáanlegt á ný.

Hættir að rukka fyrir forritið

Þó það kosti töluvert að útbúa snjallsímaforrit þá hafa flugfélögin almennt ekki rukkað símnotendur fyrir að hlaða þeim niður. Forsvarsmenn Ryanair, stærsta lággjaldaflugfélags Evrópu, reyndu það hins vegar en gáfust upp á því nú í haust og fylgja nú fordæmi annarra flugfélaga. Er það liður í því að bæta ímynd fyrirtækisins og þjónustuna samkvæmt því sem haft hefur verið eftir stjórnendum Ryanair.

Keflavíkurflugvöllur setur sitt forrit á ís

Síðastliðið sumar stóð til að hleypa af stokkunum snjallsímaforriti á vegum Isavia, rekstraraðila Keflavíkurflugvallar. Úr því varð ekki og segir talsmaður félagsins að verið sé að meta þörfina fyrir þess háttar þjónustu.

BÍLALEIGA: Rentalscars.com lofar lægsta verðinu
TILBOÐ: 15% afsláttur á góðu hóteli í Kaupmannahöfn

Mynd: Easy Jet