Vegvísir fyrir túrista í Toronto

Stærsta borg Kanada hefur upp á næstum því allt að bjóða og sumt í mjög stórum skömmtum eins og útsendari Túrista komst að.

Því er oft haldið fram að New York borg sé alveg sér á báti í Bandaríkjunum og það sama er stundum sagt um Toronto og Kanada. Í borginni búa hátt í sex milljónir manna sem jafngildir því að sjötti hver íbúi þessa strjálbýla lands eigi heima í Toronto.

Fjölmennið hefur svo sannarlega sína kosti og það því hægt að upplifa mjög ólíka stemmningu á stuttu rölti um miðborgina. Innan um háhýsin arka kontoristar milli funda eða bíða í röðum við vinsælustu pysluvagnana, í Kínahverfinu eru alls kyns matvæli og varningur til sölu og í West Queen West blómstra sérverslanir og veitingastaðir. Tvö af helstu söfnum borgarinnar svíkja heldur engan og almenningssamgöngurnar eru fínar. Íþróttaáhugamenn fá líka nóg fyrir sinn snúð í Toronto því borgin er með topplið í öllum helstu íþróttagreinum.

Í vegvísi Túrista má fá upplýsingar um nokkra af hápunktum Toronto en Icelandair flýgur nú þangað allt árið um kring.