Alræmd heimasíða Ryanair fær andlitslyftingu

Stjórnendur stærsta lággjaldaflugfélag Evrópu eru í sjarmaherferð. Ný heimasíða er liður í átakinu því sú gamla þótti ljót og lævís.

Þeir sem hafa bókað flug með Ryanair vita að það tekur lengri tíma að ganga frá pöntuninni en gerist og gengur á heimasíðum annarra flugfélaga. Sífellt þarf að taka afstöðu til kaupa á aukaþjónustu og eins er krafist upplýsinga um þjóðerni og passanúmer.

Samkvæmt talningu þurfti að smella átján sinnum á músina til að komast í gegnum allt bókunarferlið en það fer sennilega nærri því að vera helmingi meira en almennt þarf þegar gengið er frá bókun á flugmiðum á netinu.

Gildrur á þeirri gömlu

Forsvarsmenn Ryanair hafa verið skammaðir af breskum yfirvöldum fyrir að láta kaupandann sjálfan taka hak úr glugga til að komast hjá kaupum á forfallatryggingu. Þóttu þess háttar viðskiptahættir ekki boðlegir og neyddist fyrirtækið til taka þetta val út.

Útlit nýju heimasíðunnar er stílhreinna en þeirrar gömlu. Bláu og gulu boxin eru horfin og í þeirra stað eru hvítir fletir með bláum texta. Eins hafa stórar ljósmyndir á forsíðu leyst af hólmi alls kyns útsölumerkingar og einfalda grafík.

Það á líka að vera auðveldara að panta flug á nýju síðunni.

Eins og Túristi greindi frá nýverið þá hafa forsvarsmenn írska félagsins skoðað möguleikan á flugi til hingað til lands en þótti Keflavíkurflugvöllur of dýr og aðflugið á Akureyri of erfitt.

TENGDAR GREINAR: Bókunarsíður finna ekki alltaf ódýrasta flugið
NÝJAR GREINAR: Hvað kostar þriggja stjörnu gisting í tilboðsborgunum?

Mynd: Túristi