Bókunarsíður finna ekki alltaf ódýrasta tengiflugið

Það getur borgað sig að sannreyna farmiðaverðið sem vinsælar leitarvélar telja að sé það lægsta.

Þó flogið sé frá Keflavík til rúmlega þrjátíu áfangastaða í vetur þá þurfa íslenskir ferðamenn oft að millilenda á leið sinni út í heim. Þeir sem bóka ferðalagið sjálfir geta nýtt sér bókunarsíður eins og Dohop, Skyscanner og Kayak til að finna ódýr fargjöld en það er þó ekki víst að þar finnist hagstæðustu verðin eða heppilegustu ferðatímarnir.

Mikið úrval á Gatwick

Það er flogið til þriggja flugvalla í nágrenni við London frá Keflavík. Á Gatwick halda mörg lággjaldaflugfélög til og þaðan er því hægt að fara í allar áttir fyrir frekar lítið. Icelandair og Wow Air fljúga reglulega til Gatwick sem minnkar líkurnar á löngum biðtíma milli flugferða, t.d. með því að fljúga út með öðru félaginu en heim með hinu.

Ryanair, stærsta lággjaldaflugfélag Evrópu, hefur almennt ekki viljað vinna með bókunarsíðum og kemur því ekki alltaf upp í leitum þeirra eftir ódýrasta farinu. Sá sem vill til Sevilla á Spáni í vor og leitar á vinsælustu bókunarsíðunum finnur flug þangað á um áttatíu þúsund krónur. Hins vegar er hægt að ná verðinu niður í um 45 þúsund, fyrir utan farangursgjöld, með því að bóka farið frá Gatwick til Sevilla hjá Ryanair og flugið til London hjá Icelandair eða Wow Air.

Til Dubai fyrir rúmar 70 þúsund krónur

Norwegian flugfélagið er mjög umsvifamikið á Oslóarflugvelli og flýgur meðal annars til Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum á veturna. Íslendingur sem vill brjóta upp veturinn með sólarlandaferð þangað kemst fyrir rúmar 70 þúsund krónur með því að fljúga til Oslóar með Icelandair, bíða nokkra tíma og halda svo áfram með Norwegian til Dubai. Bókunarsíðurnar leggja heldur til flug í gegnum London og þaðan áfram með dýrari flugfélögum en Norwegian. Heildarverðið verður því um helmingi hærra en í dæminu hér að ofan og ferðatíminn lengri.

Newark opnar dyr

Á mánudaginn hefur Icelandair flug til Newark í nágrenni við New York borg. Á þeim flugvelli er til að mynda hægt að fljúga með lággjaldaflugfélaginu Southwest áfram til Chicago. Sá sem bókar í tíma getur fengið farið alla leið á rétt tæpar 100 þúsund krónur í vor. Samskonar ferð kostar um tíu prósent meira ef notast er við leitarvélar.

Það er hægt að setja saman óteljandi ferðaáætlanir og líklega fara öflugustu leitarvélarnar nærri því að finna ódýrustu samsetninguna í flestum tilfellum. En eins og dæmi hér að ofan sýna þá getur stutt leit á heimasíðum flugvalla og flugfélaga sparað töluverðan pening.

HÓTEL: Berðu saman verð á ódýrum hótelum út um allan heim
BÍLALEIGUBÍLAR: Bókaðu bílaleigubíl fyrir sumarfríið

Mynd: Gatwick Airport