Dýrustu og ódýrustu dagarnir fyrir Kaupmannahafnarflug

Vanalega kostar mest að fljúga frá Kastrup í lok vikunnar. Því er öfugt farið ef ferðinni er heitið til Íslands samkvæmt danskri verðkönnun.

Á sumrin er Keflavík vanalega á lista yfir þá tíu áfangastaði sem flestir fljúga til frá Kaupmannahöfn. Flugið hingað var því eitt af þeim sem starfsmenn ferðaleitarvélarinnar Momondo tóku með í reikninginn þegar þeir reyndu að greina hvernig fargjöld breytast eftir vikudögum til vinsælustu áfangastaða Dana. Eftir að hafa skoðað rúmlega níu milljónir fargjalda kom í ljós að það er oftast ódýrast fyrir Kaupmannahafnarbúa að fljúga til útlanda á þriðjudögum.

Það á líka við þegar ferðinni er heitið til Íslands segir Julie Pedersen, talskona Momondo, í samtali við Túrista. Hún segir að flugið hingað skeri sig þó nokkuð úr hvað varðar dýrasta daginn. Því í næstum öllum tilfellum kosti mest að fljúga til útlanda í lok vikunnar en til Íslands er dýrast að fljúga á miðvikudögum. Munurinn á þessum tveimur dögum er þó aðeins um 8 prósent.

Túristi kannar mánaðarlega verð á farmiðum til Kaupmannahafnar, London og Oslóar. Samkvæmt nýjustu könnun hafa fargjöld Icelandair og Wow Air til Kaupmannahafnar lítið breyst milli ára.

NÝTT: Hvað kostar hótelnóttin í Kaupmannahöfn, London og París eftir áramót?

Mynd: CPH.dk