Farþegamet síðasta árs hefur þegar verið bætt

Þó tæpir tveir mánuðir séu eftir af árinu þá hafa nú þegar fleiri farþegar farið um Keflavíkurflugvöll í ár en allt árið 2012. Gert er ráð fyrir að farþegum fjölgi um nærri fjögur hundruð þúsund frá því í fyrra.

Fyrstu tíu mánuði ársins flugu rétt rúmlega 2,4 milljónir farþega til og frá Keflavík. Það er um þrjátíu þúsund fleiri en fóru um Flugstöð Leifs Eiríkssonar allt síðasta ár. Árið 2012 var metár í farþegaumferð á Keflavíkurflugvelli og jókst hún um 12,7 prósent frá 2011.

Í fyrra fjölgaði farþegum hlutfallslega mun meira hér á landi en á stóru flugvöllum Norðurlanda eins og Túristi greindi frá.

Samkvæmt upplýsingum frá Isavia, rekstraraðila flugvallarins í Keflavík, þá er gert ráð fyrir að um 2,75 milljónir farþega fari um völlinn í ár sem jafngildir aukningu um 15,5 prósent á milli ára. Þess má geta að hver farþegi er talinn við brottför og komu til landsins. Íslendingur sem flýgur frá Keflavík til Kaupmannahafnar og tilbaka er því talinn tvisvar.

 

TILBOÐ: 15% afsláttur af gistingu í Kaupmannahöfn
BÍLALEIGUBÍLL: Rentalcars lofar lægsta verðinu