Farþegar innrita töskurnar sjálfir í flugið

Á Kaupmannahafnarflugvelli er reynt að stytta þann tíma sem fólk ver í innritunarsalnum.

Þeir sem tékka sig sjálfir inn í flug á netinu, í símanum eða í sjálfsafgreiðslustöðvum þurfa að stilla sér upp í röð til að fá flugvallarstarfsmann til að innrita farangurinn. Raðirnar við þessi töskuafhendingarborð geta oft verið mjög langar og nú reyna forsvarsmenn Kaupmannahafnarflugvallar að flýta fyrir þessu ferli með því að leyfa farþegunum sjálfum að skanna töskumiða og setja farangur á færibandið.

Til að byrja með verða það aðeins farþegar SAS og Norwegian sem geta nýtt sér þær tólf stöðvar sem komið hefur verið upp á flugvellinum en samkvæmt tilkynningu þá stendur til að gefa fleiri flugfélögum tækifæri á að nýta sér þær í nánustu framtíð. SAS og Norwegian standa undir um sextíu prósent af allri umferð um flugvöllinn í Kaupmannahöfn.

Bjóða ekki upp á innritunarborð á Keflavíkurflugvelli

Í dag nýtir meira en helmingur farþega Icelandair sér sjálfsafgreiðslustöðvar eða netsíðu félagsins til að tékka sig inn samkvæmt upplýsingum frá félaginu. Enn sem komið er geta farþegar Wow Air hins vegar aðeins innritað sig með gamla laginu í Keflavík.

Stjórnendur Easy Jet hafa hins vegar lagt niður innritunarborð á flugvöllum og allir farþegar verða því að tékka sig inn á netinu líkt og Túristi sagði frá í vor.

TILBOÐ: 15% afsláttur á góðu hóteli í Kaupmannahöfn
HÓTEL: Gerðu verðsamanburð á gistingu

Mynd: Cph.dk