Fleiri í utanlandsferð í október en yfir sumarmánuðina

Síðustu ár hefur október verið einn af stærstu ferðamánuðum ársins hér á landi. Í ár skákar hins vegar enginn október þegar litið er til fjölda brottfara Íslendinga frá Keflavíkurflugvelli.

Það fóru 37.749 íslenskir farþegar í flugi frá Keflavík í október sem eru þúsund farþegum meira en í ágúst sem var besti ferðamánuðurinn, í brottförum Íslendinga talið, í sumar. Og þar sem nóvember og desember hafa ekki verið sérlega vinsælir til utanferða hingað til stefnir allt í að október verði sá mánuður í ár sem flestir Íslendingar völdu til að ferðast til útlanda.

Þetta í fyrsta skipti sem júní, júlí eða ágúst skipa ekki efsta sætið samkvæmt talningu Ferðamálastofu sem nær tíu ár aftur í tímann.

Hrundi í hruninu

Í fyrra var júní vinsælasti mánuðurinn fyrir Íslendinga á leiðinni til útlanda og október var í þriðja sæti. Árin á undan var október í öðru til fjórða sæti en árið 2008 náði hann aðeins tíunda sæti og spilar þar sennilega inn í að íslenska bankakerfið hrundi í byrjun október það ár.

NÝJAR GREINAR: Ennþá hægt að komast í ódýra helgarferð fyrir jól
HÓTEL: Ódýr hótel út um allan heim