Heimsóttum frændþjóðirnar sjaldnar en í fyrra

Íslenskum ferðamönnum fækkaði í höfuðborgum Danmerkur, Svíþjóðar og Noregs í sumar. Kaupmannahöfn nýtur langmestrar hylli.

Í júní, júlí og ágúst flugu um fimm þúsund færri Íslendingar til útlanda en á sama tíma í fyrra. Alls fóru 106.423 íslenskir flugfarþegar út samkvæmt talningu Ferðamálastofu og nemur fækkunin um fimm af hundraði.

Það eru litlar upplýsingar til um hvert ferðinni var heitið hjá þessum stóra hópi því örfá erlend ferðamálaráð telja sérstaklega heimsóknir Íslendinga. Það gera þó frændþjóðirnar og þegar rýnt er í tölur yfir gistinætur í Kaupmannahöfn, Osló og Stokkhólmi sést að Íslendingar keyptu mun færri hótelherbergi í þessum borgum í sumar en árið á undan.

Fæstir ferðamenn þrátt fyrir mesta samkeppni í flugi

Samdrátturinn í Osló nemur rúmlega tíund á milli ára og borgin nýtur mun minni hylli en Kaupmannahöfn og Stokkhólmur meðal íslenskra ferðamanna ef miðað er við gistingar á hótelum og gistihúsum. Til höfuðborgar Noregs fljúga engu að síður þrjú flugfélög frá Keflavík allt árið um kring. Norskir ferðamenn og Íslendingar búsettir Noregi skipa því sennilega flest sætin í vélunum ásamt þeim farþegum Icelandair sem eru á ferðinni milli N-Ameríku og Evrópu.

Í Kaupmannahöfn fækkaði gistinóttum Íslendinga jafn mikið og sem nemur heildarsamdrætti í utanlandsferðum Íslendinga eða um 5 prósent. Eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan þá er Kaupmannahöfn miklu vinsælli áfangastaður meðal íslenskra ferðalanga en Osló og Stokkhólmur.

Eins og gefur að skilja eru ekki til neinar tölur um fjölda þeirra sem gistu í heimahúsum í þessum þremur borgum.

Gistinætur Íslendinga í höfuðborgum Skandinavíu:

BorgSumarið 2013Sumarið 2012Breyting í %
Kaupmannahöfn9.73410.246-5%
Osló1.5931.797-11%
Stokkhólmur2.7112.942-8%

TENGDAR GREINAR: Júní ekki lengur mesti ferðamánuður ársins
HÓTEL: Ódýr hótel um allan heim

Mynd: Terje Borud/VisitNorway.com
Heimild: Hagstofur Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur