Hvað kostar þriggja stjörnu gisting í tilboðsborgunum?

Það er nokkur munur á hótelverðum í London, París og Kaupmannahöfn í byrjun næsta árs. Túristi kannaði prísana á hótelum þessara þriggja borga.

Flugmiðar til London, Kaupmannahafnar og Parísar voru á tilboðum í vikunni hjá Icelandair og Wow Air. Framboð á flugi til þessara þriggja borga hefur aukist frá í fyrra og ekki ólíklegt að tilboðin haldi áfram að berast. Þeir sem ætla að stökkva á miða án þess að kanna fyrst hvað gistingin kostar geta hér séð hvað meðalgistiverðið er í þessum borgum á næstu mánuðum.

Túristi kannaði hvað það kostar að gista á þriggja stjörnu hóteli miðsvæðis í Kaupmannahöfn, París og London um helgi í janúar, febrúar og mars. Aðeins hótel sem hafa þrjár eða fjórar stjörnur komu til greina. Þar sem ekki er hægt að stóla aðeins á stjörnur hótelanna voru gististaðir sem ekki náðu 7 í meðaleinkunn hjá gestunum útilokaðir í leitinni. Notuð var hótelbókunarsíða Túrista sem byggir á leitarvél fyrirtækisins HotelsCombined og ber hún saman verð á öllum helstu hótelsíðum í heimi og er á íslensku.

París dýrust í mars

Það er áberandi að fjölmargir hótelstjórar slá af verðinu í byrjun árs og margir bjóða allt að þriðjungsafslátt. Þeir sem næla sér í flugmiða á tilboði komast því í ódýra helgarferð eftir áramót og geta svo notið þess besta sem þessar borgir hafa upp á að bjóða innandyra og auðvitað útsöluverðs í búðunum. Eins og sjá má á töflunni fyrir neðan þá eru verðin lægst í Kaupmannahöfn en þegar fer að vora í París þá snarhækkar gistingin í borg ljósanna. Hægt er að smella á borgarheitin til að finna gistingu í viðkomandi borg.

Meðalverð fyrir gistinótt um helgi í tveggja manna herbergi:

Janúar Febrúar Mars
Kaupmannahöfn 14.168 kr. 13.958 kr. 13.974 kr.
London 19.261 kr. 18.638 kr. 19.421 kr.
París 13.649 kr. 13.423 kr. 31.298 kr.

 

 

 

Þeir sem eru til í að gista aðeins fyrir utan miðborgir og á hótelum með tvær stjörnur geta fundið enn ódýrari gistingu.

TENGDAR GREINAR: Auðvelt að finna ódýrari bílaleigubíl í Orlando
TILBOÐ: 15% afsláttur á góðu hóteli í Kaupmannahöfn

Mynd: Visit London