Jólaferðirnar til Kanarí eru uppseldar

Það seldist hratt upp í ferðir til Kanaríeyja yfir jólin. Það er ekki útlit fyrir að fleiri sæti verði í boði því staðan á hótelum eyjaskeggja er álíka og hjá kollegum þeirra í Betlehem fyrir rúmum tvö þúsund árum síðan.

„Það seldist mun fyrr í jólaferðirnar en undanfarin ár. Mikið er um að stórar fjölskyldur ætli að eyða jólunum saman í sólinni og til að tryggja sér réttu gistinguna eru þessir hópar snemma á ferðinni,“ segir Margrét Helgadóttir, framkvæmdastjóri Úrvals-Útsýnar. Uppselt er í allar brottfarir ferðaskrifstofunnar til Kanaríeyja fyrir jólin og sama staða er uppi hjá Heimsferðum og Vita samkvæmt heimasíðum fyrirtækjanna.

Vara fólk við að fara á eigin vegum

Íslendingar eru ekki einir um að fjölmenna til spænsku eyjanna yfir hátíðirnar því ferðir þangað njóta einnig mikilla vinsælda meðal frændþjóðanna. Þar hafa sólarlandaferðir til Egyptalands vanalega selst vel á veturna en vegna ótryggs ástands þar í landi kýs fólk heldur að fara suður til Kanarí. Það hefur leitt til þess að ferðaskrifstofur hafa slegist um hótelherbergin á eyjunum og nú er svo komið að öll gistirými eru bókuð samkvæmt frétt Jótlandspóstsins. Talsmaður danskrar ferðaskrifstofu mælist því ekki til að fólk kaupi flugmiða suður á bóginn fyrr en það er búið að bóka gistingu.

TENGDAR GREINAR: Ætla að selja Íslendingum tíu þúsund ferðir
BÍLALEIGA: Auðvelt að finna ódýrari bílaleigubíl í Orlando

Mynd: Turismo Canarias