Meira en tvöfalt fleiri ferðir til Kanada

Nýr loftferðasamningur gefur íslenskum ferðamönnum færi á að fljúga beint allt árið um kring til Kanada og mun oftar en áður.

Áfangastöðum Icelandair í Kanada fjölgar úr tveimur í fjóra á næsta ári og þar af verður flogið allt árið um kring til Toronto og Edmonton. Yfir aðalferðamannatímann munu vélar Icelandair fljúga til Kanada sextán sinnum í viku en síðastliðið sumar voru ferðirnar að jafnaði ein á dag. Nýr loftferðasamningur milli íslenskra og kanadískra stjórnvalda er ein helsta ástæðan fyrir þessu stóraukna framboði á flugi til Kanada.

Helmingur íbúanna fæddur í öðru landi

Síðustu ár hefur Icelandair gert hlé á flugi sínu til Toronto yfir háveturinn. Í ár verður breyting á og þeir sem vilja heimsækja fjölmennustu borg landsins að vetrarlagi geta nú flogið þangað beint. Í Toronto er byggt hátt til að koma fleiri fyrir innan borgarmarkanna og á strætum er margt um manninn. Kanada er hins vegar eitt strjálbýlasta land í heimi en þar búa um 34 milljónir manna. Á Toronto svæðinu eiga hins vegar um sex milljónir heima og nærri helmingur borgarbúa er ekki fæddur í Kanada. Borgin stendur því svo sannarlega undir heimsborgarnafnbótinni.

Héraðshöfuðborg Nova Scotia, Halifax, hefur líka lengi verið hluti af leiðakerfi Icelandair. Hún er mun minni í sniðum en hinar þrjár en kemst reglulega á listi yfir byggilegustu borgir landsins. Háskólasamfélagið setur sterkan svip á borgina og við höfnina er starfræktur elsti bændamarkaðurinn í N-Ameríku.

Nýliðarnir Vancouver og Edmonton

En þó Halifax þykir ein besta kanadíska borgin til að búa í þá kemst Vancouver oft í eitt af efstu sætunum þegar búnir eru til listar yfir lífvænlegustu þéttbýli í heiminum. Borgin var líka nýverið valin besta ferðamannaborg Kanada af lesendum tímaritsins Conde Nast Traveller. Það er því líklegt að margir íslenskir túristar nýti tækifærið næsta sumar og fljúgi beint til vesturstrandar Kanada þegar áætlunarflugið hefst þangað. Icelandair mun þó aðeins fljúga til Vancouver yfir sumarmánuðina en öðru máli gegnir um Edmonton, höfuðborg Alberta fylkis. Þangað verður flogið allt árið en atvinnulíf borgarinnar blómstrar enda miklar náttúruauðlindir í Alberta fylki. Borgarbúar eru því á faraldsfæti en þeir eru greinilega líka kaupglaðir heima fyrir því í Edmonton er að finna stærstu verslunarmiðstöð í N-Ameríku. Sú staðreynd hljómar sennilega vel í eyrum margra íslenskra ferðalanga.

Reyndar hefur koma Icelandair til Alberta fylkis valdið nokkrum deilum milli forsvarsmanna flugvallarins í Edmonton og stjórnenda Air Canada flugfélagsins. Telja þeir síðarnefndu að móttökurnar sem íslenska félagið hefur fengið hjá flugmálayfirvöldum vera einum of góðar og hafa því í mótmælaskyni tekið af dagskrá beint flug til London yfir vetrarmánuðina. Sú ákvörðun olli töluverðu ergelsi í Edmonton samkvæmt frétt Journal bæjarblaðsins.

Hvað sem því líður er ljóst að þeir sem vilja heimsækja Kanada á næsta ári geta valið úr mun fleiri ferðum og áfangastöðum en áður.

Sjá einnig vegvísi fyrir Toronto

HÓTEL: Berðu saman verð á ódýrum hótelum út um allan heim
BÍLALEIGUBÍLAR: Bókaðu bílaleigubíl fyrir sumarfríið

Myndir: Albert Normandin/Ferðamálaráð Vancouver