Þessir hafa alltaf opið í Leifsstöð

Það er alltaf hægt að versla og fá að borða rétt fyrir utanlandsferðina en úrvalið er minna þegar fáir eru á leiðinni út.

Eftir klukkan fimm á daginn er lítið um að vera á Keflavíkurflugvelli. Síðustu vélarnar eru farnar yfir hafið til N-Ameríku og aðeins nokkur fraktflug á dagskrá. En um kvöldmatarleytið birtist fólk á ný í brottfararsalnum því Easy Jet býður upp á kvöldflug til Edinborgar á mánudögum og fimmtudögum allt árið um kring. Það komast þó aðeins 156 farþegar fyrir í þotum félagsins og því skiljanlegt að fæstir rekstraraðilar í flugstöðinni sjái sér hag í því að opna búðir og veitingastaði þessi tvö kvöld í viku.

Samkvæmt upplýsingum Túrista er þó alltaf hægt að ganga að því sem vísu að allar verslanir Fríhafnarinnar séu opnar á þessum tímum og þeir sem eru svangir geta ávallt fengið sér matarbita og hressingu á Bístró Atlantic. Eins er minni verslun Rammagerðarinnar og 66 norður, við brottfararhliðin, opin á þessum tímum. Fleiri verslanir opna ef það bætast við kvöldflug. Komuverslun Fríhafnarinnar er einnig opin fyrir þá sem eru að koma heim frá Skotlandi.

Á vorin fjölgar flugferðunum og farþegunum og þá lengist opnunartíminn. Yfir aðalferðamannatímann er opið næstum allan sólarhringinn enda hefur næturflug aukist töluvert frá Keflavíkurflugvelli síðustu ár og nokkur af erlendu flugfélögunum bjóða eingöngu upp á brottfarir eftir miðnætti.

NÝJAR GREINAR: Deilt um flugvélastæðin í Keflavík
TILBOÐ: 15% afsláttur á góðu hóteli í Kaupmannahöfn

Mynd: Isavia