Bestu ferðamannaborgirnar vestanhafs að vetri til

Þegar Bandaríkjamenn ferðast innanlands á veturna þá þykja þessir staðir mest spennandi.

Af þeim tíu borgum sem komast á lista ferðatímaritsins Travel+Leisure yfir tíu bestu vetraráfangastaðina í Bandaríkjunum er aðeins ein sem ekki státar af heitu og mildu veðri á þessum tíma árs. Það er Denver í Colorado og líklega er það nálægðin við skíðasvæðin í Klettafjöllum sem gera Denver svona aðlaðandi á veturna í huga Bandaríkjamanna. Borgin toppaði líka lista Travel+Leisure yfir þær borgir þar sem best er að njóta útivistar og íþrótta.

Þeir sem heimsækja hinar níu borgirnar þurfa hins vegar ólíklega að pakka niður hlýjum fötum áður en lagt er í hann. Samveldið Púertó Ríkó í Karabíska hafinu er í efsta sæti listans og fulltrúar sólarfylkisins Flórída eru Miami og Orlandó.

Farþegum á Keflavíkurflugvelli hefur lengi staðið til boða beint flug með Icelandair til Orlandó og í fyrra hóf félagið áætlunarflug til Denver.

10 bestu ferðamannaborgir Bandaríkjanna að vetri til:

1. San Juan, Púertó Ríkó

2. Miami

3. Honolulu

4. Orlando

5. New Orleans

6. Denver

7. Houston

8. San Diego

9. San Antonio

10. Phoenix/Scottsdale

TENGDAR GREINAR: Bjórborgin DenverÁhugi á skíðaferðum til Bandaríkjanna eykst

Mynd: Visit Denver