Aukinn áhugi á skíðaferðum til Bandaríkjanna

Klettafjöllin standa þétt að baki Denver í Colorado og í hlíðunum eru að finna fjölmörg skíðasvæði. Það stefnir í að Íslendingar fjölmenni í brekkurnar í vetur sem aldrei fyrr.

Bjartviðri og púðursnjór einkenna skíðasvæðin í Klettafjöllum að sögn heimamanna og þar er að finna nokkra af þekktustu skíðastöðum Bandaríkjanna, til dæmis Aspen og Vail. Í maí í fyrra hóf Icelandair að fljúga beint til Denver í Colarado fylki og þar með varð leiðin í brekkurnar mun styttri fyrir íslenska skíðamenn. Ferðaskrifstofan GB-ferðir hefur um langt árabil boðið upp á skíðaferðir í Klettafjöll og að sögn Jóhanns Péturs Guðjónssonar, eigenda, þá hefur áhuginn á ferðum þangað í vetur aukist. „Við erum að fá töluvert af nýjum viðskiptavinum í ár. Þetta er fólk sem er búið að fara til Evrópu í mörg ár og hefur látið sig dreyma um skíðafrí í Colorado. Það sem þau munu upplifa í vetur er gjörólíkt frá því sem það á að venjast í Evrópu“, segir Jóhann. „Ferðalangar geta verið öruggir með mjög góð snjóalög og veðráttan þarna er slík að oft er þurrt og sólríkt og snjórinn léttur og þægilegur“.

Samstarf við Hlíðarfjall

Akureyri og Denver eru vinabæir og í vetur þá fá árskorthafar í Hlíðarfjalli sérkjör á lyfukortum á Winter Park skíðasvæðinu í gegnum GB-ferðir. Winter Park er fjórða stærsta skíðasvæði Colorado og segir Jóhann einn af kostum svæðisins vera þann að biðraðir eru sjaldséðar við lyfturnar. Ástæðan er sú að svæðið er stórt og brekkurnar margar í samanburði við það gistirými sem er í boði í Winter Park.

NÝJAR GREINAR: Verðsveiflur á bílaleigum
HÓTEL: Gerðu verðsamanburð á gistingu út um allan heim

 

Mynd: GB-ferðirr