Samfélagsmiðlar

Auknar álögur á ferðamenn

Á þeim slóðum sem íslenskir túristar venja komur sínar er algengt að innheimtur sé sérstakur skattur af hótelgestum.

Það borgar sig að vera með reiðufé í vasanum þegar dvölin á ítölsku hóteli er gerð upp. Því gistináttaskatturinn sem standa þarf skil á við brottför er ekki innifalinn í hótelverðinu. Hann þarf að staðgreiða. Skatturinn er lagður á hvern gest og nemur á bilinu einni til þremur evrum (160 til 480 krónur) á hverja nótt. Fjögurra manna fjölskylda sem gistir í viku í Róm getur því þurft að borga nærri fjórtán þúsund krónur í lok dvalar.

Í Austurríki, Frakklandi, Grikklandi, Hollandi og Sviss eru þess háttar skattar líka útbreiddir og oftast er þeim bætt við hótelreikninginn. Sumstaðar þarf þó að borga gjaldið sérstaklega líkt og á Ítalíu. Til dæmis í Barcelona þar sem gestirnar greiða skattinn við innritun.

Óvinsæl aðgerð

Í París hefur þessi gjaldheimta tíðkast í nærri 20 ár og samkvæmt upplýsingum á heimasíðu ferðamálaráðs borgarinnar þá er hótelstjórum það í sjálfsvald sett að bæta gjaldinu við reikninginn eða rukka það eitt og sér.

Fyrr á þessu ári hófst innheimta á nýjum hótelskatti í Berlín og var sú leið valin að bæta fimm prósentum ofan á reikninginn í stað þess að rukka fasta upphæð. Vonast borgaryfirvöld til að tekjurnar af gjaldheimtunni muni skila um fjórum milljörðum króna í kassann og lofa að helmingur upphæðarinnar verði settur í uppbyggingu ferðaþjónustu Berlínar. Þessari breytingu var þó mótmælt harðlega af hótelstjórum höfuðborgarinnar og kollegar þeirra í Hamborg létu líka í sér heyra þegar tillögur að þessari nýju skattheimtu voru kynntar þar. Samkomulag náðist hins vegar eftir að borgaryfirvöld í Hamborg lofuðu að láta allt skattféið renna til ferðamála. Samkvæmt frétt Reuters reyndist það þýsku ferðaþjónustunni erfitt að sýna fram á ókosti gjaldsins eftir að í ljós kom að gistinóttum í Köln fjölgaði um 17 prósent árið eftir að gistináttagjald var sett á í borginni.

Hugmyndir um ferðamannaskatt verið viðraðar í Bretlandi, þar á meðal í Edinborg. Átti meðal annars að nýta fjármagnið til að standa undir kostnaði fyrir festivöl borgarinnar en eftir kröftug mótmæli frá ferðaþjónustunni var tillagan sett á ís.

Ferðamenn greiða fyrir markaðssetningu

Það tíðkast einnig í nokkrum borgum vestanhafs að bæta meiru en söluskatti við hótelverðið. Í New York er til að mynda fastri upphæð og tæplega sex prósenta álagi bætt ofan á skattinn sem er eyrnamerktur borgaryfirvöldum. Í kanadísku borginni Vancouver er einnig bætt við sérstöku markaðsgjaldi upp á 1,3 prósent við alla hótelreikninga.

Það finnast því margskonar útfærslur á gistináttaskattinum og hann virðist vera að ná töluverðri útbreiðslu í löndunum í kringum okkur. Hótelgestir sjá því fram á hærri reikninga í framtiðinni.

NÝJAR GREINAR: Ódýrari hótel með símapöntun á síðustu stundu
FERÐAMINNINGAR: Árni ÞórarinssonJónína Leósdóttir

Mynd:Visit Berlin

Nýtt efni

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …

Fyrir mánuði sendi Storytel frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt var ný þjónusta fyrir notendur. Brátt eiga hlustendur hljóðbóka möguleika á að velja nýjan lesara ef þeim líkar ekki innlesturinn. Valraddirnar eru allar skapaðar af vélmennum eða svokölluðum gervigreindarupplesurum.  Þetta nýja verkfæri Stoyrtel er tekið í gagnið vegna þess að 89 prósent af þeim sem …