Bjóða flugmiða á afborgunum

Farþegar skandinavíska flugfélagsins SAS geta nú beðið með að fullgreiða flugmiðann í allt að þrjú ár.

Farmiðar eru oftast bókaðir nokkrum vikum, jafnvel mánuðum, fram í tímann. Flestir eru því löngu búnir að borga ferðina þegar loks kemur að brottför og flugfélögin hafa því setið á peningunum allan þann tíma. Forsvarsmenn SAS, stærsta flugfélags Norðurlanda, hófu í vikunni að bjóða viðskiptavinum sínum að deila farmiðaverðinu niður á allt að 36 mánuði. Þeir sem velja þessa leið þurfa að borga um tuttugu prósent í vexti auk mánaðarlegs gjalds.

Á heimasíðu SAS er tekið dæmi um að sá sem kaupir farmiða fyrir 10.000 norskar (um 192 þúsund íslenskar) og velur að fullnýta greiðslufrestinn endar á því að borga um 66 þúsund íslenskar krónur í vexti og kostnað. Það bætast 4.400 krónur við fargjaldið ef kaupunum er dreift á þrjá mánuði.

NÝJAR GREINAR: Verðsveiflur hjá bílaleigum í Orlando

Mynd: SAS