Enginn til útlanda á jóladag

Í dag liggur allt millilandaflug niðri en þó ekki vegna óveðurs. Þetta hlé sem gert er á samgöngum til og frá landinu á jóladag virðist vera séríslensk venja.

Á aðfangadagsmorgun fóru tvær vélar til Lundúna og voru það einu ferðir dagsins frá Keflavíkurflugvelli. Í dag eru hins vegar engar brottfarir á dagskrá vallarins og sömu sögu er að segja um alþjóðlegu flugvellina á Akureyri, Egilsstöðum og Reykjavík.

Á helstu flugvöllum Norðurlanda eru hins vegar fjöldi ferða í boði í dag. Á það jafnt við stóru vellina í höfuðborgunum og þá minni í Bergen, Billund og Gautaborg. Hins vegar hefur Leifsstöð verið lokuð á jóladag síðustu ár.

Á morgun, annan dag jóla, eru hins vegar 27 brottfarir á dagskrá Keflavíkurflugvallar.

NÝJAR GREINAR: Ódýrari hótel með símapöntun á síðustu stundu

Mynd: Isavia