Fargjöldin svipuð hjá flugfélögunum

Í dag er lítill verðmunur á farinu til London og Kaupmannahafnar milli félaga og litlu máli skiptir hvort bókað er flug í janúar eða mars. Öðru máli gegnir um flugið til Oslóar.

Þriðja mánuðinn í röð sýna verðkannanir Túrista að munurinn á farmiðum félaganna sem fljúga héðan til London og Kaupmannahafnar hefur minnkað milli ára. Vegur þar þyngst að ódýrustu fargjöld Easy Jet hafa lækkað mikið frá því í fyrra. Fyrir nákvæmlega ári síðan var til að mynda ekki hægt að fá far með Easy Jet til London, undir lok janúar, fyrir minna en 56 þúsund krónur. Núna kostar ferð á sama tíma um tíu þúsund krónum minna. Icelandair bauð best í fyrra en er nú um 700 krónum dýrari kostur en Wow Air til London. Easy Jet er ennþá nokkru dýrara en íslensku félögin ef bókað er með stuttum fyrirvara en eins og sjá má á næstu síðu er félagið ódýrast ef bókað er þremur mánuðum fram í tímann.

Dregið hefur saman með Icelandair og Wow Air hvað varðar flug til Kaupmannahafnar líkt og kemur fram í töflunni hér fyir neðan. Norwegian hefur hins vegar sérstöðu fyrir þá sem ætla til Oslóar og býður félagið upp á mun lægra far en Icelandair og SAS.

Í mánaðarlegum verðkönnunum Túrista eru fundnir ódýrustu farmiðarnir til London, Kaupmannahafnar og Oslóar hjá hverju félagi fyrir sig. Við fargjaldið er bætt bókunar- og kreditkortagjöldum og kostnaði við að innrita farangur. Skoðuð eru fargjöld fjórum og tólf vikum fram í tímann

Þróun fargjalda í viku 4 (20.-26. janúar) milli ára þegar bókað er með fjögurra vikna fyrirvara

2014

2013 Breyting
London:
Easy Jet 45.895 kr. 56.107 kr. -17,5%
Icelandair 40.630 kr. 34.370 kr. +18,2%
Wow Air 39.424 kr. 39.825 kr. -1%
Kaupmannahöfn:
Icelandair 39.350 kr. 39.220 kr. +0,3%
Wow Air 36.301 kr. 32.560 kr. +11,5%
Osló:
Icelandair 33.270 kr. Osló var ekki hluti af verðkönnuninn í fyrra
Norwegian 19.360 kr.
SAS 34.556 kr.


Í þessum mánaðarlegu könnunum Túrista eru fundin lægstu fargjöldin, báðar leiðir, innan ákveðnar viku hjá hverju félagi fyrir sig. Gert er ráð fyrir að lágmarksdvöl í útlöndum sé tveir sólarhringar. Farangurs- og kreditkortagjöld eru tekin með í reikninginn (sjá samantekt yfir aukagjöld hér). Verð voru fundin á heimasíðum félaganna 26. nóvember 2013 og 2012.

Á næstu síðu má sjá þróun verðgjalda í viku 12

BÍLALEIGUBÍLAR: Svona borgar þú miklu minna fyrir bílaleigubíl