Fella niður einkaleyfi á akstri til Keflavíkurflugvallar

Það er útlit fyrir að áfram muni verða samkeppni um rútufarþega á leið milli höfuðborgarsvæðisins og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.

Sex fyrirtæki tóku þátt í útboði Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum í byrjun árs þegar lýst var eftir tilboðum í einkaleyfi á áætlunarferðum milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar. Útboðið var kært og í kjölfarið úrskurðaði Samkeppniseftirlitið að stöðva þyrfti áform um einokun í áætlunarakstri á þessari leið.

Í gær sendi Vegagerðin forsvarsmönnum Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, S.S.S, bréf þar sem tilkynnt var einkaleyfið hefði verið fellt niður. Samkvæmt upplýsingum frá Berglindi Kristinsdóttur, framkvæmdastjóra sambandsins, er það mat stjórnar S.S.S. að nauðsynlegt sé að bregðast við þessari ólögmætu ákvörðun Vegagerðarinnar.

Nýverið var gengið frá samningi við fyrirtækið SBK um aksturinn en félagið átti lægsta boð í útboðinu.

Kristján Daníelsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, sem rekur Flugrútuna, segir að ákvörðunin um að fella niður einkaleyfið á leiðinni hafi verið það eina rétta í stöðunni.

Í fyrra nýttu um 400 þúsund farþegar sér áætlunarferðir til og frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar samkvæmt því sem kemur fram í útboðsgögnum.

NÝJAR GREINAR: Ódýrari hótel með símapöntun á síðustu stundu

Mynd: Isavia