Ferðaminningar Jónínu Leósdóttur

Þykk súpa í Skotlandi og frekur íkorni í Cambridge er meðal þess sem Jónína Leósdóttir rithöfundur minnist úr ferðalögum sínum til útlanda. Bók Jónínu, Við Jóhanna, kom út í haust og hefur hún vakið mikla athygli.

Fyrsta ferðalagið til útlanda:

Ég steig í fyrsta sinn fæti á erlenda grund þegar ég var ellefu ára. Þetta var árið 1965 og þá var afar sjaldgæft að íslenskir krakkar færu til útlanda. En ég var óttalegur Lasarus svo einhleypar og barnlausar föðursystur mínar, buðu mér í heilsubótarferð á sólarströnd. Við millilentum í Prestwick í Skotlandi þar sem fríhafnarverslunin var lítið skatthol með hengilás. Síðan var flogið áfram til Kaupmannahafnar og þaðan til Spánar eftir að ég hafði fengið að heimsækja Tívolí og verið dressuð upp í Magasin. Á ströndinni var ég svo steikt hressilega í þrjár vikur, það átti að styrkja ónæmiskerfið.

Best heppnaða utanlandsferðin:

Ein utanlandsferð stendur upp úr. Það var þegar við Jóhanna, konan mín, dvöldum í Cambridge í heilan mánuð árið 2002. Við bjuggum í lítilli íbúð og deildum garði með frekum íkorna sem krafsaði í húsið og tætti í sig sólhúsgögn og þvottasnúrur ef honum fannst við of seinar með daglega hnetuskammtinn. Ég notaði morgnana til að skrifa og svo fórum við í langa göngutúra síðdegis en hvíldum okkur af og til á kaffihúsum og í bókabúðum. Himnaríki …

Verst heppnaða utanlandsferðin:

Eitt sinn vörðum við Jóhanna tveimur vikum í Vatnahéraðinu, The Lake District, norðarlega í Bretlandi en ég lá með flensu og bullandi hita í tíu daga og sá því lítið af náttúrufegurðinni þarna. Við gistum í Glasgow á heimleiðinni og þar á hótelinu fékk ég versta mígrenikast ævi minnar. Ömurlegt frí.

Besta máltíðin í útlöndum:

Ég er dálítið skrýtin í matarmálum, grænmetisæta með fæðuóþol. Bestu máltíðina í útlöndum fékk ég í Skotlandi og hún samanstóð af þykkri súpu úr grænum baunum og myntu, ásamt grófu brauði með osti úr ógerilsneyddri mjólk.

Tek alltaf með mér í ferðalagið:

Ég fer ekki út fyrir Elliðaár, hvað þá lengra, án lyfjanna minna (við ofnæmi, mígreni ofl.) og stækkunarspegils.

Draumafríið:

Mig dreymir um að komast í frí til útlanda án þess að þurfa að fljúga eða sigla.

TILBOÐ: 15% afsláttur af gistingu í Kaupmannahöfn
BÍLALEIGUBÍLL: Rentalcars lofar lægsta verðinu

Myndir: Forlagið