Fleiri ferðir til Brussel

Flugfélagið Thomas Cook Airlines hóf Íslandsflug í fyrra og ætlar að fjölga ferðum sínum hingað um þriðjung næsta sumar.

Þó aðild Íslands að Evrópusambandinu sé ekki lengur í pípunum þá munu samgöngur milli Brussel og Íslands eflast á næsta ári. Forsvarsmenn belgíska flugfélagsins Thomas Cook Airlines hafa ákveðið að halda Íslandsflugi sínu áfram næsta sumar og verða ferðirnar þriðjungi fleiri en þær voru í ár.

„Fyrsta tímabil okkar á Íslandi var vel heppnað og það er okkur því gleðiefni að tilkynna að frá og með 31. maí munum við fljúga milli Brussel og Keflavíkur tvisvar í viku. Þessi flugleið naut mikilla vinsælda meðal þeirra farþega sem kjósa að bóka flugið eitt og sér og hún passar því vel inn í blandaðan rekstur okkar,“ segir Baptiste van Outryve, talsmaður Thomas Cook Airlines, í samtali við Túrista. En flugfélagið er í eigu Thomas Cook samsteypunnar sem er ein stærsta ferðaskrifstofa í heimi. Að sögn Baptiste van Outryve kosta ódýrustu miðar félagsins frá Keflavík til Brussel 99 evrur (um 16 þúsund krónur) og fylgir ein innrituð taska með. Félagið mun gera hlé á flugi sínu hingað í lok ágúst.

Icelandair býður upp á morgunflug til Brussel allt að fjórum sinnum í viku frá vori og fram á haust.

Fleiri erlend félög bæta við sig hér á landi

Líkt og Túristi greindi frá nýverið ætlar þýska flugfélagið Airberlin einnig að fjölga ferðum sínum hingað og sömu sögu er að segja um hið spænska Vueling. Bæði fljúga þó aðeins til Íslands yfir sumartímann. Breska lággjaldafélagið Easy Jet hefur einnig aukið umsvif sín hér á landi með fjórum heilsárs áfangastöðum og í vor bætist við sumarflug til Basel í Sviss. Það er því útlit fyrir að ferðum erlendra flugfélaga hingað til lands fjölgi töluvert á nýju ári.

NÝJAR GREINAR: Verðsveiflur hjá bílaleigum í Orlando


Mynd: Thomas Cook Airlines