Lent á nýjum stað í Sankti Pétursborg

Ný flugstöð verður tekin í notkun við Pulkovo flugvöllinn í Sankti Pétursborg eftir áramót en þangað er flogið frá Keflavík yfir sumartímann.

Í fyrrasumar var í fyrsta skipti boðið upp á áætlunarflug héðan til Rússlands þegar Icelandair bætti Sankti Pétursborg við leiðakerfi sitt.

Ferðamannastraumurinn til þessarar næststærstu borgar Rússlands hefur verið mikill allt frá hruni járntjaldsins enda eru hún ákaflega glæsileg og stutt saga hennar er dramatísk. Það var því löngu kominn tími á að endurnýja flugstöðina við Pulkovo.

Árið 2010 tók heimamaðurinn Vladimar Pútín, þáverandi forsætisráðherra, fyrstu skóflustunguna að nýrri flugstöðvarbyggingu og í síðustu viku fóru fyrstu farþegarnir þar um. Strax í byrjun næsta árs er reiknað með að allir þeir sem fljúga til og frá Sankti Pétursborg muni fara um þessi nýju húsakynni.

Á síðasta ári fóru hátt í 12 milljónir farþega um völlinn og er hann sá þriðji stærsti í Rússlandi.

TENGDAR GREINAR: Skyldustoppinn í Sankti Pétursborg
NÝJAR GREINAR: Ferðaminningar Árna Þórarinssonar

Mynd: Pulkovo