Ódýrari hótel með símapöntun á síðustu stundu

Kjarkaðir túristar með snjallsíma í farangrinum geta sparað töluverðan pening með því að bóka gistinguna daginn sem haldið er út. Túristi hefur fylgst með tilboðunum sem nokkur ný hótelbókunarfyrirtæki bjóða símnotendum.

Sá sem lendir í hádeginu í dag í London, kveikir á snjallsímanum sínum og bókar hótel í gegnum app frá Hotel Tonight getur fengið vænan afslátt af gistingunni í nótt. Þannig kostar herbergið um 17 þúsund íslenskar á Myhotels Chelsea í kvöld ef bókað hjá Hotel Tonight en tvöfalt meira ef pantað er á heimasíðu þessa fjögurra stjörnu hótels.

Tilboðin eru ekki alltaf svona góð samkvæmt því sem athuganir Túrista hafa leitt í ljós. Vanalega er hægt að spara sér um fjórðung af gistiverðinu á hótelum í ódýrari kantinum og þeir sem vilja búa á fínni hótelum geta oft fengið þannig gistingu fyrir upphæð sem vanalega dugir aðeins fyrir hóteli í milliflokki. Hotel Tonight er bandarískt fyrirtæki og hefur vaxið hratt í ár og býður nú daglega upp á nokkur hóteltilboð í flestum borgum Bandaríkjanna og Kanada. Fyrirtækið er að færa út kvíarnar í Evrópu og í samtali við Túrista segir talskona þess að nú sé einblínt á að bæta við áfangastöðum og Íslandi þar á meðal.

Fleiri kostir í stöðunni

Þeir sem eru á ferðalagi um Evrópu og vilja láta reyna á tilboðin sama dag og haldið er út geta líka athugað úrvalið hjá Hot Hotels og Blink. Það fyrrnefnda er einnig með á sínum snærum hótel í látlausari kantinum og þeir sparsömustu geta þar fundið töluvert úrval af hótelum sem kostar minna en 10 þúsund krónur á nóttina.

Öll þessi þrjú forrit birta fyrst tilboðin milli klukkan 9 og 11 að staðartíma og í flestum tilvikum er hægt að bóka nokkurra daga gistingu. Afslátturinn er hins vegar hæstur fyrstu nóttina.

Þeir sem eru hins vegar ekki til í að taka sénsinn á því að allt gistirými sé uppbókað í borginni geta gert verðsamanburð á hótelum og bókað hagstæðasta kostinn hér.

TENGDAR GREINAR: Svona borgar þú miklu minna fyrir bílaleigubílinn –  Verðsveiflur á bílaleigum í Orlando

Myndir: HotelTonight