Vægi íslenskra farþega minnkar

Utanlandsferðum Íslendinga hefur fjölgað hratt milli ára frá hruni en nú hefur hægt að þessari þróun. Hlutfall Íslendinga í Flugstöð Leifs Eiríkssonar dregst töluvert saman milli ára.

Það sem af er ári hafa rétt rúmlega 340 þúsund íslenskir farþegar ferðast frá Keflavíkurflugvelli. Fjölgaði þeim um eitt prósent frá sama tíma í fyrra samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Þetta er töluvert minni vöxtur en árin á undan því ferðum Íslendinga til útlanda fjölgaði um 5 prósent í fyrra og 16 prósent á milli áranna 2011 og 2012.

Fimmtungi fleiri brottfarir

Það stefnir í að árið í ár verði á pari við það síðasta, þegar litið er til ferða Íslendinga, þrátt fyrir að framboð á flugi hafi aukist þónokkuð frá því í fyrra. Til dæmis buðu Icelandair, Wow Air og Easy Jet upp á samtals 110 fleiri ferðir héðan í síðasta mánuði en á sama tíma í fyrra samkvæmt talningu Túrista. Það jafngildir um fimmtungs aukningu.

Ferðum útlendinga frá Keflavíkurflugvelli heldur hins vegar áfram að fjölga hratt og vægi íslenskra farþega hefur minnkað um nærri fjögur prósent það sem af er ári. Á tímabilinu janúar til nóvember í fyrra voru Íslendingar 35,3 prósent þeirra sem flugu frá Keflavík en í ár er hlutfallið komið niður í 31,5 prósent. Í talningu Ferðamálastofu eru farþegar sem aðeins millilenda í Keflavík ekki taldir með.

GISTING: Bókaðu ódýrt hótel
NÝJAR GREINAR: Ferðaminningar Árna Þórarinssonar