Verða fljótlega að staðfesta flug til N-Ameríku

Hvorki Icelandair né Wow Air fengu alla þá afgreiðslutíma sem félögin óskuðu eftir á Keflavíkurflugvelli næsta sumar. Úthlutunin var ekki í takt við úrskurð samkeppnisyfirvalda.

Í byrjun nóvember úrskurðaði Samkeppniseftirlitið að Wow Air skyldi fá afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli í sumar til að geta sinnt flugi til New York og Boston. Fjórum vikum síðar var úthlutun afgreiðslutíma fyrir næsta sumar gerð opinber og þá kom í ljós að Wow Air fékk ekki þá tíma sem félagið hafði óskað eftir. Icelandair fékk ekki heldur umbeðna tíma fyrir flug sitt til Edmonton og Vancouver í Kanada. Samkvæmt upplýsingum frá Isavia hafa félögin frest fram til loka janúar til að staðfesta notkun á núverandi afgreiðslutímum.

Icelandair hóf fyrir nokkru síðan sölu á flugi til kanadísku borganna en hins vegar er ekki hægt að bóka flug til Bandaríkjanna á heimasíðu Wow Air. Túristi hefur ítrekað reynt að fá upplýsingar frá félaginu um stöðuna á fluginu vestur um haf en án árangurs. Til samanburðar má geta að þegar Iceland Express hóf flug til New York sumarið 2010 þá hófst sala á miðum haustið á undan.

Samkvæmt upplýsingum frá áfrýjunarnefndar samkeppnismála þá kærðu Isavia og Icelandair úrskurð Samkeppniseftirlitsins. Nefndin hefur sex vikur til að kveða upp álit sitt eftir að kæra berst. Ekki liggur fyrir hvort það náist áður en flugfélögin þurfa að staðfesta við Isavia að þau ætli að nota þá afgreiðslutíma sem þeim var úthlutað fyrir flug til N-Ameríku.

NÝJAR GREINAR: Bestu ferðamannaborgirnar vestanhafs að vetri tilFerðaminningar Árna Þórarinssonar