Vorið býður upp á nýja valkosti

Í apríl og maí er næstum hægt að ganga að góðu íslensku sumarverðri sem vísu á meginlandi Evrópu. Af framboði ferðaskrifstofanna að dæma þá njóta borgarferðir vinsælda meðal Íslendinga á vorin.

Það stefnir í að boðið verði upp á áætlunarflug til nærri fimmtíu borga frá Keflavík yfir aðalferðamannatímann á næsta ári. En áður en sumarflugið hefst þá gefst okkur færi á að fljúga beint til nokkurra evrópskra borga sem eru ekki hluti af leiðakerfi flugfélaganna.

Fleiri ferðir austur

Sankti Pétursborg, Varsjá og Vilníus eru einu borgirnar í austurhluta Evrópu sem flogið er reglulega til frá Keflavík. Í apríl og maí bætast hins vegar við leiguflug til Bratislava, Ljubljana og Prag á vegum Heimsferða. Ferðir til höfuðborgar Slóvaka eru fátíðar hér á landi á meðan fyrrum landi hennar, Prag, hefur lengi verið fastur punktur á dagskrá íslenskra ferðaskrifstofa og spreytti Iceland Express sig á áætlunarflugi til þessarar vinsælu borgar á sínum tíma. Fulltrúi ferðaskrifstofunnar Vita í austrinu er Tallinn í Eistlandi. Á vegum ferðaskrifstofunnar Trans-Atlantic verður haldið til Riga í Lettlandi í lok apríl og boðið verður upp á brottfarir frá Keflavík og Akureyri.

Smáréttasvall að hætti Baska

Ef það er eitthvað sem getur tekið athyglina frá Guggenheim safninu í Bilbao þá er það helst allur maturinn sem þekur barborð borgarinnar. Pintxos er baskneska útgáfan af tapas og veitingamenn í Bilbao og nágrannaborginni San Sebastian kunna svo sannarlega að gera þessum pinnamat góð skil. Síðarnefnda borgin skipar oft sæti á listum yfir þá áfangastaði sem sælkerar vilja helst heimsækja í Evrópu og sú staðreynd kemur þeim sem heimsótt hafa borgina ekki spánskt fyrir sjónir. Það er Vita sem býður upp á ferðir til þessara tveggja borga í Baskalandi í vor.

Í hitann í suðrinu

Flugsamgöngur milli Íslands og Ítalíu eru heldur takmarkaðar því aðeins er flogið til Mílanó í norðurhluta landsins yfir sumarið. Þrátt fyrir það þá hafa rúmlega fimmtán þúsund Ítalír heimsótt okkur það sem af er ári. Þeir íslenskiu túristar sem vilja endurgjalda heimsóknina geta gengið að leiguflugi til Rómar sem vísu á vorin og þannig verður það einnig á næsta ári.

Sólarlandaferðir til Algarve, syðsta hluta Portúgals, eru reglulega í boði hjá íslenskum ferðaskrifstofum og undanfarin hefur hin hæðótta höfuðborg komist á kortið. Það eru ekki bara brekkurnar sem hægja á göngu ferðamanna í Lissabon því hún er mjög fjölbreytt þrátt fyrir að vera ekki ýkja stór. Það er líka erfitt að arka í takt við Fado músíkina sem heyrist oft hljóma á götum úti, sérstaklega eftir að skyggja tekur.

Búðaborgin

Það tekur ekki langan tíma að fljúga héðan til Írlands og borgarferðir til Dublin hafa lengi notið vinsælda. Sérstaklega fór góður rómur af verslunum borgarinnar og öldurhúsum. Það kemst sennilega meira fyrir á dagskrá þeirra sem heimsækja þessa vinalegu borg í vor þegar Úrval-Útsýn og Vita bjóða upp á ferðir þangað.

Gerðu verðsamanburð á hótelum út um allan heim

NÝJAR GREINAR: Verða fljótlega að staðfesta flug vestur um haf
FRÍVERSLUN: Pakkaferðir hingað og þangað

Myndir: Ferðamálaráð Lissabon, San Sebastian og Tallinn