Wow Air má nú selja ferðir til Bandaríkjanna

Bandarísk flugmálayfirvöld hafa samþykkt umsókn Wow Air um leyfi til að fljúga til Bandaríkjanna. Ekki liggur þó fyrir hvenær félagið hefur sölu á farmiðum.

Um miðjan nóvember sóttu forsvarsmenn Wow Air um leyfi til að hefja flug til Bandaríkjanna hjá flugmálayfirvöldum þar í landi. Talsmaður bandarísku flugmálastjórnarinnar (FAA) segir í svari til Túrista að umsókn íslenska félagsins hafi verið afgreidd fyrir jól og Wow Air megi því hefja sölu á ferðum til Bandaríkjanna. Icelandair og Atlanta Air voru einu íslensku fyrirtækin sem voru með þess háttar leyfi þar til nú.

Ekki fengust upplýsingar hjá Wow Air um hvenær sala á ferðum til Bandaríkjanna hefst en forsvarsmenn félagsins hafa áður sagt að stefnt sé að því að hefja flug til Boston í vor.

Hafa frest fram til loka janúar

Í byrjun nóvember úrskurðaði Samkeppniseftirlitið að Wow Air skyldi fá afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli í sumar til að geta sinnt flugi til New York og Boston. Fjórum vikum síðar var úthlutun afgreiðslutíma fyrir næsta sumar gerð opinber og þá kom í ljós að Wow Air fékk ekki þá tíma sem félagið hafði óskað eftir. Icelandair fékk ekki heldur umbeðna tíma fyrir flug sitt til Edmonton og Vancouver í Kanada. Samkvæmt upplýsingum frá Isavia hafa félögin frest fram til loka janúar til að staðfesta notkun á þeim afgreiðslutímum sem þeim var úthlutað.

TENGDAR GREINAR: Deilt um flugvélastæðin í Keflavík

Mynd: Wow Air