10 ráð fyrir flughrædda

Það er alls ekki þannig að allir sem setjast um borð í flugvél, halli sætinu aftur og slaki síðan á. Sumir eru á nálum alla leiðina og hér eru leiðbeiningar fyrir þá sem vilja læra að vinna bug á hræðslunni.

heathrow flugtak

Flughræddir Íslendingar með útþrá geta lítið annað gert en tekist á við óttann. Því fyrir utan skipasiglingar frá Seyðisfirði á sumrin þá eru ekki önnur farartæki í boði en flugvélar þegar ferðast á héðan til útlanda.

Því er haldið fram að allt að þriðjungur fullorðinna sé með flugfælni á einhverju stigi en höfundur bókarinnar Overcome you fear of flying gerir hins vegar lítið út hættunni og bendir á að það séu meiri líkur á því að asni veiti þér banasár en að þú látir lífið í flugslysi.

Hér eru samansafn af ráðum fyrir flughræddra sem finna má heimasíðum ferðatímarita og flugstöðva.

1) Það er sennilega óhætt að fullyrða að margir telja sig halda flugfælninni í lágmarki með því að drekka áfengi fyrir flug og í háloftunum. Það er hins vegar samdóma álit sérfræðinga að áfengi geri illt verra því ölvun eykur líkurnar á því að fólki finnist það ekki hafa stjórn á aðstæðum. Einnig er víða mælt með því að kaffi sé sett á hilluna rétt á meðan ferðalaginu stendur. Hins vegar er gott að drekka nóg af vatni.

2) Þegar fólk er stressað brennir það fleiri hitaeiningum og því er nausynlegt að borða vel fyrir flug.

3) Morgunflug til útlanda er mjög algengt hér á landi og vafalítið margir sem mæta illa sofnir í Leifsstöð í morgunsárið. Þeir flughræddu ættu hins vegar að passa vel upp á svefninn og koma úthvíldir í flugið.

4) Til að minnka líkurnar á tímapressu er best að mæta snemma á flugstöðina og geta þannig haldið ró sinni og einbeitt sér að því að halda flughræðslunni í skefjum.

5) Flugvélar sem lenda í ókyrrð í háloftunum hristast meira fyrir aftan miðju og því skynsamlegt að velja sér sæti framarlega í vélinni.

6) Láttu áhöfnina vita ef þér líður illa og fáðu ráð frá þeim.

7) Andaðu djúpt en hægt og rólega.

8) Taktu með þér góða bók og tónlist í flugið.

9) Aflaðu þér þekkingar um flugvélar og tæknina sem býr að baki þeim. Ef það er eitthvað ákveðið hljóð eða hreyfing sem angrar þig sérstaklega þá skaltu reyna að komast að ástæðum þess að hljóðið heyrist.

10) Hugsaðu um áfangastaðinn og afhverju þú ert að leggja flugferðina á þig.

Icelandair heldur reglulega námskeið við flugfælni.

VINSÆLT: Svona borgar þú minna fyrir bílaleigubíl
TILBOÐ: 25% afsláttur í London –  3ja nóttin frí í Edinborg

Mynd: Heathrow Airport