20 stærstu flugvellir Norðurlanda

Það fóru rúmlega 24 milljónir farþega um flugvöllinn í Kaupmannahöfn á síðasta ári og engin önnur norræn flughöfn státar af álíka fjölda. Mesta aukningin var hins vegar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Sú íslenska nýtur ákveðinnar sérstöðu á Norðurlöndum.

Norðmenn fljúga mikið innanlands og níu af tuttugu stærstu flugvöllum Norðurlanda, í farþegum talið, eru í Noregi. Ísland og Finnland eigi aðeins einn fulltrúa á listanum sem birtur var á heimasíðunni Check-in.dk.

Bítast um SAS

Bilið á milli flugvallanna við höfuðborgir Noregs og Danmerkur minnkar jafnt og þétt og í Danmörku óttast ferðaþjónusta landsins að SAS muni fljótlega auka umsvif sín í Noregi á kostnað starfsseminnar í Danmörku. Ef það gengi eftir þá myndi flugvöllurinn, sem eitt sinn var kenndur við Gardermoen, fara fram úr vellinum við Kastrup og verða um leið sá stærsti á Norðurlöndum. Reyndar vilja yfirvöld í Stokkhólmi einnig fá SAS til að fljúga til fleiri staða frá Arlanda og einn af stjórnarmönnum SAS hefur verið skipaður í nefnd sem á að vinna að framgangi flugvallarins. Þessi nefndarstörf hafa valdið óánægju á meðal ferðafrömuða í Noregi og Danmörku sem segja þau valda hagsmunaárekstrum.

Sá eini sem er aðeins með millilandaflug

Á síðasta ári fjölgaði farþegum í Keflavík hlutfallslega miklu meira en á öðrum norrænum flugvöllum eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan. En fyrir utan ferðir Icelandair milli Akureyrar og Keflavíkur á sumrin þá er ekkert innanlandsflug í boði frá Keflavík öfugt við alla hina flugvellina á listanum.

Árlega fara á milli 400 til 500 þúsund farþegar um Reykjavíkurflugvöll og ef innanlandsflugið færðist til Keflavíkur þá myndi völlurinn aðeins færast upp um eitt sæti á listanum yfir stærstu flughafnir Norðurlanda.

20 stærstu flugvellir Norðurlanda.

Flugvöllur Fjöldi farþega 2013 Breyting frá 2012
1. Kaupmannahafnarflugvöllur 24.067.030 +3.1%
2. Oslóarflugvöllur 22.956.544 +4.0%
3. Arlanda í Stokkhólmi 20.681.554 +5.1%
4. Vantaa í Helsinki 15.279.043 +2.8%
5. Flesland í Bergen 6.213.960 +6.9%
6. Landvetter í Gautaborg 5.004.093 +3.1%
7. Sola í Stavanger 4.668.403 +5.8%
8. Værnes í Þrándheimi 4.311.328 +3.6%
9. Billund á Jótlandi 2.829.507 +3.5%
10. Keflavíkurflugvöllur 2.751.743 +15.6%
11. Bromma í Stokkhólmi 2.279.501 -0.6%
12. Skavsta við Stokkhólm 2.169.587 -6.4%
13. Malmö 2.127.586 +1.1%
14. Langnes í Tromsö 1.935.419 +2.5%
15. Rygge við Osló 1.890.889 +9.2%
16. Torp Sandefjord 1.856.300 +8.8%
17. Bodø í N-Noregi 1.669.191 -3.6%
18. Álaborg á Jótlandi 1.422.289 +8.7%
19. Luleå í N-Svíþjóð 1.106.638 +1.5%
20. Álasund V-Noregi 1.077.209 +7.6%

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

TILBOÐ: 25% AFSLÁTTUR Í LONDONÞRIÐJA NÓTTIN FRÍ Í EDINBORG
NÝJAR GREINAR: Lægsta verðið þegar engin samkeppni er um farþegana